Tímarit Máls og menningar - 01.12.1953, Blaðsíða 121
FERÐAPISTLAR
231
fellt í vetur sem leið, höggvið greinar af og barkarflett bolina, dregið
síðan niður að vatni á ís og snjó og að lokum safnað þeim saman í einn
flota umgirtan trjábolum, sem festir eru saman á endunum með tágum.
Einn daginn komu tveir menn með langan og mjóan stálþráð vafinn
upp á stóru kefli. Þeir fengu litla flatbotna kænu, sem tilheyrir Vassbö,
festu vírunum við trjáflotann og byrjuðu að róa með allan flotann í
eftirdragi niður að stíflunni. Mér þótti það með ólíkindum að þetta
mætti takast, enda virtist þeim ekki miða meira en þumlung með hverju
áratogi. Ekki veit ég hversu lengi þeir voru, en vegalengdin er að
minnsta kosti hálfur annar km. og það getur aðeins einn maður róið
þessari kænu í einu. I þessum flota munu hafa verið yfir sex hundruð
stór tré.
Nú var ákveðinn dagur hvenær flóðgáttirnar skyldu opnaðar. Það
varð uppi fótur og fit í öllum dalnum og ekki sízt spenningur hjá okkur
gestunum í Vassbö, sem aldrei höfðu séð þessar aðfarir. Snemma morg-
uns lögðum við þrír af stað á tveimur hjólum niður að stíflunni, Þor-
björn frá Osló, Vífill sonur minn og ég, til að horfa á. Ég var dálítið
feiminn að fara á bak reiðskjótanum, því ég hafði ekki hjólað frá því
ég var unglingur. En það er með hjólreiðar eins og sund, það gleymist
aldrei þeim sem einu sinni hafa lært það.
Þegar að stíflunni kom voru menn að safnast þar saman, sumir ung-
ir, sumir miðaldra, en allir vaskir menn. Atta þeirra höfðu afbarkaða
teinunga fyrir stjaka 14—16 feta langa með broddi og krók úr járni
á digrari endunum. Það var auðfundinn spenningur í mönnum þó allt
færi kyrrlátlega fram, enda er þetta íþrótt ársins fyrir dalbúana.
Tveir flotar stórir lágu í vari við hólma skammt frá stíflunni. Var nú
byrjað á því að róa kænunni út að flotunum, festa stálþráðinn við þá
og draga síðan að stíflunni. Eitthvað fannst mér þeir fara óverklagnis-
lega að því, þar eð þeir drógu flotana með rykkjum í stað þess að gera
það með hægu stöðugu átaki, og hafði orð á því. Varð þá syni mínum
að orði: Er nú eggið farið að kenna hænunni? Og var það hæfileg
ofanígjöf, því alltaf veit sá betur sem á horfir en hinn sem framkvæmir.
Fjörutíu ár eru síðan þeir hlóðu stífluna og þannig hafa þeir sjálfsagt
farið að í öll þessi ár.
Meðan þessu fór fram stukkum við Vífill ofan af stíflugarðinum til
að athuga hvað vatnsborðið væri mikið hærra en árfarvegurinn. Reynd-