Tímarit Máls og menningar - 01.12.1953, Blaðsíða 19
EFNISHYGGJA OG HÚMANISMI STEPHÁNS G.
129
hinni stoltu þjáningu, og Sofokles í lofsöng sínum: mörg eru undur ver-
aldar, en ekkert eins dásamlegt og maðurinn! — þessi manndýrkun elztu
skálda Evrópu var endurborin í ljóðum hins íslenzka Klettafjallaskálds.
Mannhugsjón Stepháns er norræn karlmennska og hetjulund, gædd sið-
mildun menningarinnar.
Það hefur löngum verið kynfylgja hinnar heimspekilegu efnishyggju
að gera lítið úr viðleitni mannanna í þeirri lögmálsbundnu tilveru, er
þeim var hösluð, að vanmeta verk mannsins og drýgða dáð. Það er í
rauninni ekki fyrr en um miðja 19. öld, er hinn vísindalegi sósíalismi
verður andlegur leiðarhnoði verkalýðsins, að hin heimspekilega efnis-
hyggja leysir fræðilega úr því vandamáli, hvernig háttað er samskiptum
manns og umhverfis, bæði þess, sem af náttúrunnar hendi er gert, og
hins, sem mannlegt samfélag hefur skapað og markað handaverkum
sínum. Hinn vísindalegi sósíalismi gerði þessu máli full skil með því að
gera vinnuna að aflvaka mannlegs þjóðfélags og mannlegrar sögu. Á
öllum tímum hafa mennirnir útskýrt heiminn og tilveruna á ýmsa lund,
en á þeirri stundu, er þeir hófu morgunverk á þessari jörð, tóku þeir
að breyta heiminum og tilverunni, og um leið tóku þeir að breyta sjálf-
um sér.
Hér er þess enginn kostur að rannsaka, hvaða áhrifum Stephán G.
Stephánsson hefur orðið fyrir af ritum marxismans. Þeirrar staðreynd-
ar skal aðeins getið, að Ijóð hans eru flest ort í anda þessarar mann-
félagshugmyndar sósíalismans og hugsunarháttur skáldsins er allur
markaður díalektískri þróunarhyggju. Náttúruljóð og árstíðakvæði
skáldsins eru líkust litkvikmyndum, sem á einu andartaki breytast í
táknmyndir og líkingar mannlegs lífs, regin náttúrunnar verða nærri
mennsk að eðli og með orku sinni og athöfn mótar maðurinn náttúr-
una og sveigir hana til hlýðni við vilja sinn:
Því skynsemd fólksins skapar landsins gæði.
Að guðsgjöf tóm sé auður lands og yndi,
en ekki mannsverk, það er ósannindi.
Er hugurinn grípur lífsins vaxtarvegi
er von að hann við þroskaskeiðin segi:
„Þín aðferð stenzt, þinn aldafjöldi eigi.“
A fáum árum fjallið gegn má rjúfa,
sem fljótið var í aldabil að kljúfa.
Tímarít Máls og menningar, 2.—3. h. 1953
9