Tímarit Máls og menningar - 01.12.1967, Síða 42
Timarit Máls og menningar
í hárinu og hafði hnýtt skýluklút á sig, því það átti að vera ball á Oddanum
í kvöld og strákurinn á búnaðarfélagsgröfunni var búinn að bjóða henni.
Vindurinn ýfði ennþá stráin suður í mýrinni, en það horfði enginn á það
lengur, þeir horfðu allir á Jóhannes og Jóhannes horfði á plastbollapörin.
Og hver er það, sem þú átt von á?
Það var Gústi í Borg, sem spurði, þeir höfðu nýverið kosið hann í hrepps-
nefnd í staðinn fyrir Lúðvík bróður hans, sem hafði dottið ofan af nýju
hlöðunni og orðið skrítinn í kollinum. Svo Gústi á Borg hafði aldeilis efni
á að spyrja.
Hver er það, sem þú átt von á, Jóhannes?
Já, segðu okkur það, Jóhannes!
Það var afglapinn í sláturhúsinu, sem tók undir, hann hallaði sér makinda-
lega upp að veggnum og reykti Wings. Bókarinn í kaupfélaginu var þarna
líka í hópnum og var alltaf að hagræða gleraugunum. Sumir sögðu hann
þyrfti ekki þessi gleraugu í raun og veru, hann sæi eins vel gleraugnalaust
og hver annar. Símstöðvarstjórinn hafði einhverntíma sagt, að hann gengi
með gleraugu til að sýna, að hann væri samvinnuskólagenginn. Þeir lærðu
þar að hagræða gleraugum á nefinu á sér, það væri mikið lagt upp úr því
hvernig þeir færu að því að hagræða gleraugunum. En það var ekki að
marka allt, sem símstöðvarstjórinn sagði, hann hafði ekki verið allsgáður
síðan lýðveldið var stofnað.
Hvurju áttu von á, Jóhannes?
Nú var það Mundi í Shell, sem spurði á nýjaleik.
Og Jóhannes heldur áfram að horfa á plastbollapörin eins og guðlega
opinberun, en í þetta sinn svarar hann. Hann talar seint og dræmt meðan
hann brýtur saman klútinn, búinn að snýta sér og þurrka sér vandlega.
Tja — það gæti skeð hún kæmi í dag.
Jæja! sagði stúlkan og klóraði sér í hárinu undir rúllunum. Þarftu þá
ekki að kaupa eitthvað handa henni?
Onei.
Kannski konfektkassa?
Ætli það.
Þú átt kannski ennþá konfektkassann sem þú keyptir handa henni í vor.
Ekkert svar. Jóhannes smeygði vasaklútnum með ýtrustu varfærni aftur
í vasann.
Ætlarðu að segja mér þú eigir ennþá konfektið, sem þú keyptir í vor?
Jóhannes svaraði engu. Hann klóraði sér á bringspölunum.
344