Tímarit Máls og menningar - 01.11.1971, Qupperneq 55
Sögn frá Tsjagan-Kúren
táknrænum hætti þegar hann fyrirfór þessum falska guði í flóðinu. Og þó þú
ættir þúsund hesta, hvað stoðar það ef guð hefur ekki á þér velþóknun. En
þú átt eina níu hesta. Seldu þá, kæri sonur, og fáðu mér silfurúnsurnar fyrir
þá því vonskan er fólgin í því að ásælast þau verðmæti, sem mölur og ryð
fá grandað. Snúðu hjarta þínu frá græðgi líkamans, hef þig til hins ósýni-
lega og búðu þig af stað með hestana. Ég kem með þér niður í Blávík og
sjálfur get ég komið hestunum í verð til að forða þér frá vonskusynd.“
Sem þeir höfðu selt hrossin niðri í bænum lét Piket andvirði þeirra í belti
sitt. Eftir að þeir komu heim bað Sakadsja hann að setja nýja guðinn á
viðarstöpulinn. „Fylling tímans er enn ekki kominn, sonur sæll,“ hrópaði þá
hin æruverðugi upp yfir sig, „því enn ertu þræll líkamsþurfta þinna og átt þrjá
úlfalda. Búðu þig til að fara á morgun því þessa úlfalda skulum við selja.
Augað verður aldrei satt af því að horfa á úlfaldana nema eyrað líka heyri
fótatak þeirra.“
Þannig atvikaðist það að þeir seldu úlfaldana líka í Blávík. Um leið og
Piket stakk silfurúnsunum í belti sitt svaraði hann spurningu Sakadsjas um
það hvort nýi guðinn kæmi á stallinn þann daginn: „Vendu þig nú af þessari
óþolinmæði því með óþolinmæðinni reitirðu guð þinn til reiði. Vissulega er
fylling tímans enn ekki komin, sonur minn, því í veitingahúsinu „Fullkom-
leikinn þrefaldur“ varstu að gorta af því að þú ættir enn þrjá uxa. Jafnvel
hinir stæðilegustu uxar eru til marks um forgengileikann sjálfan. Þú beitir
þeim á steppuna og væntir þess þeir fitni og dafni. í sál þér blunda enn svo
margar lágar hvatir, að þú verður að gera yfirbót. Yfirbótin ein mildar guð
þinn. Settu ekki traust þitt á jarðneska hluti en seldu uxana, sonur sæll, því sá
sem fölskvalaust elskar guð sinn finnur ekki aðra gleði meiri.“
Nú seldu þeir uxana og Sakadsja átti ekki annað eftir en sauðina ellefu:
„Nú mun ég skíra þig, sonur kær,“ sagði Piket hátíðlega, „og undireins og
við erum búnir að éta sauðina held ég á braut til þess að boða hina sönnu
trú.“
Skírnin fór fram. Sameiginlega átu þeir sauðina og ræddu um hina nýju
trú.
„Helgi maður,“ sagði Sakadsja einn góðan veðurdag og benti á trékross-
inn, sem Piket hafði látið á stöpulinn eftir skírnarathöfnina, „þú segir að
þetta sé einungis tákn, sem þú hefur látið á stöpulinn í nafni guðsins. Ég er
stórsyndugur og mér nægja ekki tvær spýtur í kross. Mig langar ósegjanlega
til þess að þú verðir hér kyrr hjá mér í guðs nafni svo ég eigi sem mest af
þessari nýju trú.“
133