Tímarit Máls og menningar - 01.11.1971, Qupperneq 65
Vm íslenzka þjóðhœtti
háð úr öllu saman, eins og þeir sögðu sumir fyrir hundrað árum. Og þetta
tekur sinn tíma. Það dugir semsé ekki að fara að með amerískum hraða eins
og Bandaríkjamaðurinn, sem var að sanka að sér heimildum um huldufólks-
trú á írlandi, knúði dyra á hverju húsi og kallaði inn: „Hey, do you believe
in fairies?“
Vissulega væri æskilegast, að unnt reyndist að hitta að máli hvern mann á
landinu, sem náð hefði sjötugs- eða jafnvel sextugsaldri, rekja úr honum
vitneskjuna og skrifa hjá sér eða taka upp á segulband. Ekki má heldur
gleyma því, sem öllu öðru tekur fram við varðveizlu þekkingar um gömul
vinnubrögð og venjur, en það eru vel gerðar heimildarkvikmyndir. Danskur
maður, Aage Rothenborg, sem gert hefur þjóðháttakvikmyndir fyrir danska
þjóðminjasafnið um áratuga skeið, gaf Þjóðminjasafni íslands við komu
sína hingað í haust táknræna fjárupphæð sem fyrsta framlag til að unnt
verði að koma á fót safni kvikmynda um íslenzka þjóðhætti. Væntanlega vilja
ekki aðeins erlendir aðilar styðja slíkt málefni, og vonandi hefur þetta framtak
útlendings sviplík áhrif á íslendinga og fordæmi Konráðs Maurers fyrir 110
árum. En þá ríður mikið á, að engir fúskarar verði látnir vinna verkið. Þar
þarf bæði gjörþekkingu á fyrirbrigðinu, sem á að kvikmynda, og kunnáttu
og útsjón í meðferð kvikmyndatækjanna. Og einkanlega má gæta sín á því að
sviðsetja löngu horfin fyrirbæri. Verklagið verður enn að vera mönnum lif-
andi veruleiki, svo að útkoman verði ekki kauðaháttur og tilgerð.
En hvað sem því líður, þá yrði þessi aðferð ærið seinleg, ef fara ætti um
landið allt, nema talsvert starfslið ynni að því. Og að þessu þarf einmitt
að vinda bráðan bug á næstu árum. Við erum nefnilega í þeirri aðstöðu að
hafa búið við tiltölulega kyrrstætt eða a.m.k. hægfara atvinnu- og menningar-
ástand um aldaraðir fram um síðustu aldamót. Og það er varla hægt að segja,
að nútíminn haldi verulega innreið sína fyrr en á síðustu 50—60 árum, og
tæknibyltingin heldur ekki sína sigurför fyrr en á síðustu 30 árum. Það ætti
því enn að vera gerlegt að safna allítarlegum heimildum um daglegt líf,
vinnubrögð, venjur og viðhorf hjá þjóð, sem var allþroskuð á sviði bók-
menningar, en vanþróuð á sviði verkmenningar. Enn eru til í landinu nálægt
1000 manns, sem eru 85 ára og eldri, þ. e. fólk, sem fræðilega séð ætti að geta
munað vel eftir sér frá því um og fyrir aldamót. Og um það bil 2000 í viðbót
eru yfir áttrætt. Sjálfsagt er það ekki nema hluti þessa fólks, sem af heilsu-
farslegum ástæðum getur gefið nokkrar upplýsingar, en þótt ekki tækist að
virkja nema nokkur hundruð eða nokkra tugi þeirra, þá væri það ómetan-
legt. En þetta yrði að gerast tafarlaust, því að sá slyngi sláttumaður veitir
143