Tímarit Máls og menningar - 01.11.1971, Síða 67
Um íslenzka þjóðhœtti
og það má ekki ganga framhjá því, að jafnvel hinum heiðarlegasta heimildar-
manni hættir fremur til að segja frá hinu óvenjulega en hinu almenna.
Eðlilegt er, að lesendur slíkrar bókar telji lýsingu, sem e. t. v. er í rauninni
bundin við eitt hérað, hafa átt við um landið allt. Slíka skoðun er jafnerfitt
að sanna sem afsanna, þegar engin gögn eru í höndum. Sjálfsagt mætti
draga saman líkur eftir þeim fjölmörgu æviminningabókum, sem komið hafa
út á þessari öld, og það verður auðvitað gert fyrr eða síðar. En hingað til
hefur það verk mætt afgangi, því að ekki þarf að bjarga því, sem þegar
er komið á prent. Af sömu ástæðu hefur enn lítið verið að því gert að vinna
úr þeim gögnum, sem þj óðháttadeildinni hafa þegar borizt. En slík úrvinnsla
gæti einmitt orðið mjög forvitnileg, m. a. til að kanna, hvort einhver umtals-
verður munur hafi verið á siðum og venjum eftir landshlutum, eða hvort
landið hafi verið eins óskipt menningarsvæði og menn freistast oft ósjálfrátt
til að álíta, m. a. vegna þess skilnings, sem þeir leggja í bókina íslenzkir
þjóðhættir, sem verið hefur ólítil Biblía um þessi efni, síðan hún kom út,
ekki sízt hjá blöðum og öðrum fjölmiðlum.
Ein tilraun til slíkrar úttektar var þó gerð á s.l. ári varðandi svör við
spurningum um sumardaginn fyrsta og ýmislegt, sem snertir sumarkomu.
Niðurstöður af þessari fyrstu könnun sinnar tegundar birtust í Árbók Forn-
leifafélagsins árið 1970.5 Þær niðurstöður bentu einkum til þess, að siðir
og viðhorf hafi verið margbreytilegri á landinu en áður hefur almennt verið
ætlað. Þessi eina athugun leyfir þó engan veginn, að tekið verði að skipta
landinu í einskonar menningarsvæði. Til þess þyrftu mjög margar slíkar
kannanir að fara fram. En ef við gerðum okkur samt að leik að deila landinu
eftir þessu, þá yrði aðalniðurstaðan sú í afar grófum dráttum, að skilin
væru ekki svo mjög milli Norðurlands og Suðurlands, heldur miklu fremur
milli austur- og vesturhluta landsins, þar sem mörkin væru í nánd við
Skagafjörð að norðan, en mun óljósari að sunnan, allt frá Reykjanesi að
Vestur-Skaftafellssýslu.
Fróðlegt væri að gera ámóta úttekt á sérhverri þeirra 23ja spurningaskráa,
sem svör hafa fengizt við til þessa, til að prófa, hvort nokkur samsvarandi
svæðaskipting kæmi þar í ljós. Það gætu orðið hjálpargögn í alhliða rann-
sókn á samskiptum og kynnum fólks milli einstakra landshluta og sérkennum
hvers héraðs fyrir sig.
Það skal að endingu ítrekað, að eigi að bjarga þeim menningarsögulegu
lieimildum, sem við enn höfum í seilingarfj arlægð, þá verður að hefjast
handa strax, en ekki bíða eftir áliti nefnda í heilan áratug eða meir.
10 TMM
145