Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Síða 37
Maðurinn sem varð fyrir óláni
hana síðdegis á hverjum degi, en eyða hvorki orði á hana né ávarpa
manninn hennar.
Síðdegis, þegar maðurinn kom frá systur sinni, greindi hann við
heimkomuna, líkt og hvíslað væri að honum, að konan héldi fram hjá
honum í hvert sinn sem hann færi til systur sinnar. Þessum grun var hvíslað
að manninum inni á baði. Viðbrögð hans voru að mála á sér varirnar og
læðast aftan að konunni, þar sem hún sat í stól við gluggann og sneri við
honum baki.
Svona ert þú, sagði maðurinn og skældi sig framan í konuna.
I fyrstu varð konunni hverft við upphlaup mannsins, en síðan hló hún
óþvingað og sagði:
Eg vissi að eitthvað sniðugt mundi spretta upp úr þessari voðalegu
þögn þinni í allan vetur. Loksins ertu sjálfum þér líkur. Nema þú sért að
leika mig, bætti konan við og skríkti.
Það ískraði í konunni af ánægju, og hún tók fús þátt i leik mannsins.
Leikur þeirra barst óðar inn í svefnherbergið. Og í fyrsta sinn síðan
maðurinn giftist hafði hann á tilfinningunni, að þau hefðu gefið hvort
öðru sjálft sig fullkomlega, bæði andlega og líkamlega. Fullnæging
mannsins var alger að leiknum loknum. Aðeins andartak greip hann
furða yfir hvað tilfmningar í brjósti manns geta tekið á sig einkennilega
mynd, en hann vísaði frá sér þeirri hugmynd, að í raun og veru væri enginn
maður hann sjálfur, heldur einhver annar. Um kvöldið heimsótd hann
aftur systur sína. Systir hans var ein heima og hann sagði óvænt:
Heyrðu, nú veit ég að konan er mér ótrú.
Þá hefur hún elskað þig og elskar þig eflaust enn, sagði systir hans.
Hví segirðu það? spurði maðurinn. Það væri þá einkennileg ást.
Nú, hafið þið ekki búið saman í fimm ár? spurði systirin. Ef einhver
heldur fram hjá eftir fimm ára sambúð, gerir hann það bara til að dytta
örlítið að ást vanans. Að öðrum kosti mundi fólk hreinlega skilja.
Eg er venjulegur maður og skil ekki flókna speki, sagði maðurinn.
Mitt vit er í höndunum, af því ég hef unnið með þeim. Og með
höndunum finn ég, þegar ég snerti konuna mína, að hún er mér ótrú.
Systirin horfði stundarkorn á bróður sinn, líkt og á báðum áttum; svo
sagði hún:
155