Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Blaðsíða 114
Tímarit Máls og menningar
Meginerindi þessarar greinar er að koma á framfæri almennum sjónarmiðum, og
því mun ég ekki skjóta digrum sögulegum stoðum undir almennar fullyrðingar.
Þó vil ég fara nokkrum orðum um nýja framhaldsskólann sem íslenskir skóla-
menn — með heilshugar stuðningi sósíalistanna i þeim hópi — eru að smíða um
þessar mundir.
Eins og allar umbætur er nýskipan framhaldsskólanna kynnt sem hin mesta
framfarasókn, ekki síst fyrir nemendur. Sagt er að þeir fái haldbetri og aukna
menntun og möguleikar æskunnar til að velja sér starf við eigið hæfi stóraukist.
Lítum hins vegar á nokkrar staðreyndir umbótanna.
— Iðnnámið er í auknum mæli fært inn í skólana og um leið styttist það.
Fyrri hluti þess verður breiðari en tíðkaðist í meistarakerfi en síðari hlutinn
sérhæft starfsnám. Breið grunnmenntun gerir iðnaðarmönnum það kleift að
læra ný störf á stuttum tíma, t. d. á endurmenntunarnámskeiðum, og með þessu
móti er komið til móts við aukna sérhæfingu starfanna, — liðkað til fyrir
hægfara afhæfingu.
— Ríkisvaldið nær í fyrsta sinn stjórnunarlegum tökum á iðnnáminu
þannig að auðveldara verður að breyta því til samræmis við breytingar á vinnu
eða til að auðvelda væntanlegar breytingar. í því sambandi ergott að hafa i huga
að bæði ríkisvald og hluti atvinnurekenda hefur lengi talið það höfuðnauðsyn
að koma á aukinni verksmiðjuframleiðslu og hagræðingu í byggingariðnaði.
Slíkt mun hafa í för með sér stórfellda afhæfingu starfa hjá miklum hluta
iðnaðarmanna.
— Ymist sérnám verður fært á framhaldsskólastig þar sem undanfarin ár
hefur verið krafist stúdentsprófs eða tekið við nemendum á svipuðu þroskastigi.
Hér er átt við hjúkrunarnám og ýmis konar listnám, s. s. leiklist. Með þessu er í
raun verið að veita atlögu að kjörnum og kunnáttu þessara starfsstétta.
— Samræming framhaldsskólans hefur i för með sér töluverða hagræðingu
og sparnað. M. a. mun f)ölga i mörgum námseiningum (bekkjum), þannig að
vinnuálag á kennara eykst og þeim fækkar.
— Samræmingin inniheldur jafnframt stórfellda breytingu til miðstýringar á
námsefni, og verður seint séð fyrir endann á afleiðingum þess fyrir skólastarfið,
m. a. fyrir svigrúm til gagnrýnins starfs.
Undir það skal hins vegar fúslega tekið að samræming framhaldsskóla mun
jafna til- muna aðstöðu nemenda eftir búsetu, þar sem menntunarmöguleikarnir
færast nær. Sósíalistum má þó ekki yfirsjást um að þetta er einungis jöfnun á
aðstöðu til að raða sér á verkskipta bása kapítalískrar launavinnu. í heild hefur
samræmingin í för með sér að íslenskt skólakerfi verður betur í stakk búið til að
232