Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Qupperneq 8
Tímarit /VIá/,t og menningar
vekur vissulega grunsemdir um að reynt sé að bæta sér upp missi sjálfsvirðingar
með ímynduðum hetjuskap, einsog þegar menn svipta sig lífi til að bjarga eigin
mannorði eða ættar sinnar og þykir bera vott um snert af geðtruflun.
Það sem ég vildi stuttlega víkja að er sú hnignun þjóðarmetnaðar og almenns
siðgæðis sem ágerst hefur ár frá ári á liðnum þrem áratugum. Þráttfyrir ötula
baráttu bestu sona og dætra þjóðarinnar, þeirra á meðal nálega allra rithöfunda
og annarra skapandi listamanna, hefur sífellt sigið á ógæfuhliðina. Spillingin
sem grafið hefur um sig kringum herstöðina hefur sýkt frá sér og teygt anga sína
inná velflest svið þjóðlífsins. Herstöðin hefur í senn orðið stórkostleg féþúfa og
gróðrarstía hverskonar spákaupmennsku og glæpastarfsemi sem hér er óþarft að
tiunda. Heraflinn er utanvið íslensk landslög og torvelt fyrir Islendinga að ná
rétti sínum þegar í odda skerst. Má í því sambandi vitna í frægan hæstaréttar-
dóm frá 1961 þess efnis að engin ákvæði í lögum frá 1951 um réttarstöðu
Bandaríkjahers á Islandi kveði á um að herstjórnin „skuli hlíta lögsögu íslenskra
dómstóla um skipti sín við aðilja hér á landi“. Má til sanns vegar færa að þetta sé
eitt áþreifanlegasta og átakanlegasta dæmið um afsal sjálfsvirðingar og sið-
ferðisþreks i samskiptum við tröllveldið, og vil ég þó ekki gera lítið úr því
betlihugarfari sem lýsir sér í sífelldum beiðnum um fjárframlög til framkvæmda
sem hver fullvalda þjóð mundi sjálf fjármagna. Vegabréfsáritanir Islendinga til
Bandaríkjanna og frjáls aðgangur Bandaríkjamanna að íslandi er áþekkt dæmi
um stöðu okkar gagnvart herraþjóðinni. Undirskriftasöfnun Varins lands um
árið er önnur ömurleg staðfesting þess hve giftusamlega hernám hugarfarsins
hefur tekist, og veit ég engin dæmi þess að álitlegur hluti sjálfstæðrar þjóðar hafi
sjálfviljugur lagst svo lágt i auðsveipni við voldugan nágranna. Um sjónvarps-
málið þarf ekki að hafa mörg orð, en kinnroðalaust verður tæplega á það minnt.
Sé litið yfir frammistöðu Islendinga á alþjóðavettvangi, má heita að við höfum
verið fastur fylgihnöttur Bandaríkjanna í öllum meiriháttar málum. Og þannig
mætti lengi halda áfram að telja.
Manni þykir stundum ekki einleikið að þjóð, sem öldum saman stríddi við
sult og seyru, náttúruhamfarir, drepsóttir og aðra óáran en varðveitti samt stolt
sitt og sjálfstæðisvilja, skuli á nokkrum árum allsnægta og hóglífis hafa glutrað
niður sjálfum tilverugrundvelli sinum, trúnni á eigin getu til að sjá sér farborða,
en hér hafa að vísu voldug innlend öfl verið að verki og lúið járnið jafnt og þétt
uns það var orðið mjúkt og meðfærilegt. Ötulust þessara afla hafa vitanlega
verið Sjálfstæðisflokkurinn og málgögn hans, en aðrir svokallaðir lýðræðis-
flokkar og málgögn þeirra komið í humátt eftir stóra bróður. Er það raunar ein
frh. á bls. 190
126