Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Blaðsíða 16
Hjörtur Pálsson
Hauströkkrið yfir mér
Eitt ljóðið í verðlaunabók Snorra Hjartarsonar, Hauströkkrinu yfir mér, heitir
Kuml á heiði. Enginn nema íslenskur lesandi gæti nokkru sinni skynjað það til
hlítar vegna þeirra sterku tengsla við sögu og fornar sagnir sem lesa má milli
línanna.
Ung stúlka með glóandi nisti við barm teygir klárinn sinn austan heiðina í
sólskininu. Þetta ergleðin sjálf sem ríður til fundar við vin sinn, því skip hans er
komið af hafi. Hún vill mæta honum ein, stígur af baki, gengur upp á hól við
veginn og sest í vorgróið lyngið. Margt leikur í hug þess sem hún ávarpar, en sér
einungis beinin á örfoka hólnum í svölu og gráu veðri. Stúlkan þráir heitast að
gefa honum gjöf, gefa honum sýn inn til sín þar sem hún dvelur ,,í ljósi og flugi
og kyrrð“, láta hann lifa með sér „þessa stund þennan örlagadag" handan við
tímann sem ekki er lengur til, sjá, heyra, finna til eins og hún. En augu hans eru
haldin og ljóðinu lýkur á þessum línum:
ó gætirðu séð
en þú sérð það ekki
sérð ekki.
Ekkert getur miðlað seið þessa ljóðs og galdri nema það sjálft eins og það lifir í
myndum sínum og máli og þeim sterka, áleitna grun sem það vekur um mikil
örlög í fögnuði og harmi sem eru hin andstæðu skaut þess. Lesandinn stendur
til skiptis í sporum þess sem ekkert sér nema örfoka hólinn og beinin og hins
sem opnum augum sér og skynjar þá mynd og þann hugblæ sem röddin miðlar
með þeim orðum sem hún mælir. Þau kveikja slíkt líf að brátt er eins og þau
hverfi og eftir standi aðeins þessi mynd í ljóma sínum og gliti, leikur golunnar,
hraðinn, fögnuðurinn og grunurinn um það sem gerast muni. Allt kemur upp í
fang lesandans — hesturinn, stúlkan og heiðin, sólskinið og blærinn yfir
kjarrinu. Það er allt innan sjónmáls og seilingar. Þess vegna fá þær ellefu
ljóðlínur þar sem beinum orðum er talað um blindu þeirra augna sem ættu að
134