Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Side 12
Tímarit Máls og menningar
En þrátt fyrir myrkur nútíðarinnar endar kvæðið á styrkri og bjartsýnni von, sá
sem talar er þess fullviss að sólin gisti hann aftur.
Þessi grunnhugsun um bjarta fortíð, dimma nútíð og von um bjarta framtíð
er mjög rík í kveðskap Snorra.
En hyggjum að þrenningunni í þessu kvæði. Landið, náttúran, er grunn-
mynd þess. Það byggir aðallega á þremur náttúrumyndum, skógarmynd, mynd
sólar og dægraskipta og svanamynd. Þetta þrennt er fléttað saman í sterka heild
sem ber uppi tilfinningalega framvindu ljóðsins.
Þjóðin, sagan, menningin, er til staðar í kvæðinu með nokkuð dulari og
óbeinni hætti. Heiti þess, / Úlfdölum, vísar okkur á Völundarkviðu og við sjáum
að Völundarsögnin hefur verið lögð til grundvallar. Völundur var hamingju-
samur smiður en síðan hnepptur í fjötra sem hann leysti af sér með list sinni og
flaug á braut. Völundur, hagleikssmiðurinn mikli, er einnig sannur fulltrúi
hugmyndar Snorra um skáldið sem hagleiksmann, sem smið — hagsmið bragar
eins og Bragi gamli Boddason kemst að orði — en það er hugmynd sem ekki
einungis er til staðar í öllum skáldskap Snorra í ófrávíkjanlegri kröfu hans um
fágun og fegurð smíðisgripa sinna, heldur kemur hún einnig fram beint, t. d. í
Það kallarþrá, þar sem hann hvetur sjálfan sig:
Dvel eilífð fjallsins háður
við aflinn smiður, málmur, loginn rauður,
og slá í órofsönn
ef ekki sverð, þá gullin stef á skjöldu!
Við getum þannig séð Völund í kvæðinu / Úlfdölum sem persónugerving
skáldsins Snorra sjálfs og lesið kvæðið sem persónulegt uppgjör hans við list sína
og líf. En vegna þess hve náttúrumyndirnar og Völundarsögnin fjarlægja ljóðið
sem smíðisgrip persónu skáldsins sjálfs fær það fyrst og fremst almenna skír-
skotun og við sjáum endurspeglast í því ekki aðeins lífsskilyrði hverrar mann-
eskju og listamannsins sérstaklega, heldur einnig sögu allrar þjóðarinnar frá
gullöld í árdaga gegnum þrengingar og gerningamyrkur til nýrrar vonar. Og við
sjáum einnig að hvað þessa byggingu snertir er I Úlfdölum náskylt Völuspá.
Við sjáum þá heilögu þrenningu sem ég hef gert að umtalsefni ef til vill
ennþá skýrar í því kvæði sem kcmur næst á eftir I Úlfdölum og ber yfirskriftina
Jónas Hallgrímsson. Þó að hvergi sé minnst á Jónas í þessu kvæði né beint vikið
að ævi hans og skáldskap hygg ég að okkur mundi ekki dyljast um hvað þetta
kvæði er, jafnvel þótt heiti þess benti okkur ekki á það.
130