Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Blaðsíða 33
Mannsbarn á myrkri heiði
unz óskakraftur
minn endurrís
úr ösku ljóðs míns
og hjarta,
úr mistri og sorta
skín svanaflug
og sólin gistir
mig aftur.
Eldurinn er sterkasta andstæða myrkursins í „Mér dvaldist of lengi“, og það
er hann sem á að lýsa mannsbarninu út úr því. Hann gegnir margvíslegu
hlutverki i kvæðinu, og merkingarleg — og táknræn — skírskotun hans er
mjög víð. Ein gæti verið til skáldskaparins. Ferðamanninn sem kveikir eld á
dimmri heiði vil ég sjá sem mynd skáldsins sem yrkir ljóð í dimmri veröld.
Þannig kemur i þessu ljóði fram trú á mátt skáldskaparins í leit mannsins að
sjálfum sér í firrtum heimi, og þar með einnig á hlutverk hans í baráttunni gegn
þjóðskipulagi sem vill slíkan heim.
Fyrir Snorra eru heim og sjálfumleiki það sama. Þetta minni, sem við höfum
séð að felur í sér sköpunina, náttúruna, upprunann og dauðann, tengir hann í
einu ljóðinu af öðru við landið, við ísland. í „Land þjóð og tunga“ (bls. 70)
lítur hann á þetta þrennt sem eitt og segir:
Þú átt mig, ég er aðeins til í þér
I samræmi við þetta er ljóðstíll Snorra. Tvær fyrstu ljóðabækurnar koma út
um það leyti sem formbyltingin svokallaða er að ryðja sér til rúms í íslenskri
ljóðagerð. Sem önnur formbyltingarskáld rís Snorri gegn hefðinni, en hann
hafnar henni ekki eins og svo margir aðrir. I staðinn leitast hann við að laga
hana að ljóðum sínum, þannig að rím, stuðlar og hrynjandi verði þar merk-
ingarbærar einingar. Viðhorf hans er því á vissan hátt gagnstætt viðhorfi Steins
Steinars, sem lýsti því yfir í frægri setningu að hið hefðbundna ljóðform væri nú
loksins dautt.10 Ljóðstíll Snorra er þess vegna enginn „meðalvegur í formbreyt-
ingu“,“ heldur sprottinn af grundvallarlífsviðhorfi hans. Með því að
byggja á hefðinni og endurskapa hana tekst honum að tjá það sem kalla mætti
íslenska vitund. Vegna óska sinna um fegurð, samræmi og samkennd eru ljóð
hans andóf gegn firringu og upplausn þjóðfélagsins. Gildið sem slík ljóð hafa
umfram hin opnu baráttuljóð er að þau halda lifandi með okkur hugmyndinni
um nauðsyn betri heims og fegurra mannlífs.
151