Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Síða 73
Þritug þjódvilla
og ósigra haldið vakandi þeirri hugsjón að enn sé ekki allt glatað, þjóðin geti
endurheimt sjálfsvirðingu sína og sjálfsforræði, endurvakið trúna á eigin getu
og hugkvæmni til að ráða framúr vandamálum sínum. Við höfum líka átt
verulegan þátt í að móta viðhorf umheimsins til Islendinga í þá veru, að þjóðin
sé ekki upptil hópa auðnulaus betlilýður þó hún lúti forsjá þýlundaðra og
metnaðarlausra pólitíkusa. Þetta kann að sýnast stórt tekið uppí sig, en ég get af
margháttaðri reynslu víða um heim trútt um talað: hugsandi menn i mörgum
löndum gera sér ljóst að á Islandi er virk og öflug andspyrna gegn ásælni og
yfirdrottnun Bandaríkjastjórnar og þeir veita okkur að minnstakosti siðferði-
legan stuðning og líta á okkur sem samherja i þeirri breiðfylkingu báðumegin
járntjalds sem berst gegn heimsvaldastefnu tröllveldanna.
Þó oft hafi blásið harkalega á móti okkur í baráttunni er það trúa mín og
sannfæring, að tíminn vinni með okkur, að smáþjóðir heims geri sér æ betur
Ijóst að lífshagsmunir þeirra liggja ekki undir verndarvæng tröllvelda grárra fyrir
járnum, heldur í samstöðu og andófi smælingjanna gegn blindri valdaflkn
herveldanna. Sá tími hlýtur að renna upp, ef veröldin á sér yfirleitt nokkra
framtíð, að risarnir molni einsog Mökkurkálfi leirjötunn í goðsögninni, og þá
mun smáþjóðunum verða lífvænt.
En framtil þess tíma er lífsnauðsyn að þeir menn allir haldi vöku sinni sem
stunda á viðgang lands, þjóðar og tungu, þeirrar þrenningar sem ljær mannlífi á
þessu útskeri lit, tón og tilgang.
Þegar ég var í barnaskóla fyrir 40 árum var okkur kennt ljóð Einars Bene-
diktssonar um Reykjavík og þótti boðskapur þess sjálfsagður, þarsem segir:
En þó við Flóann byggðist borg
með breiða vegi og fögur torg
og gnægð af öllum auð —
ef þjóðin gleymdi sjálfri sér
og svip þeim týndi, er hún ber,
er betra að vanta brauð.
Þetta var í miðju stríði og samt hafði peningaausturinn ekki enn glapið
mönnum sýn til þeirra muna, að þeir kynnu ekki að meta slíkan kveðskap. Hve
margir íslendingar gætu tekið undir orð skáldsins á þessum degi? Því svari hver
fyrir sig og láti svarið verða sér hvöt til að efla andófið. Við megum gjarna vera
þess minnug að hann var ekki ýkjastór hópurinn sem hélt á loft hugsjón
íslenskrar endurreisnar á síðustu öld. Heiðrum minningu hans með því að láta
ekki deigan síga!
191