Tímarit Máls og menningar - 01.06.1981, Side 69
Bókmenntir gegn gulri pressu
gegna lykilhlutverki í þeirri fyrirbyggjandi gagnbyltingu sem vikið var að í
upphafi þessarar greinar, táknrænar fyrir sögulega þróun samfélagsins, síður en
svo léttvægar undantekningar. Hvað Bild varðar er sami vandi á ferð. í evrópsku
samhengi er svo „lélegt“ stórblað sjaldséð fyrirbæri, en blaðið hefur eins og fyrr
var sýnt ofurvald á þýskum blaðamarkaði. Hugmyndafræðileg barátta gegn Bild
er því frumnauðsyn fyrir sósíalíska hreyfingu í Sambandslýðveldinu. Auðvitað
er margt í pólitík Wallraffs umdeilanlegt, en stundum virðist mega skýra
svonefnda vinstrigagnrýni á hann út frá minninu um súru berin.
Starf Wallraffs miðast við hina opinberu umræðu, og þá er blaðamennskan
auðvitað heppilegt form. Hann reynir að draga ýmislegt laumuspil ráðamanna
inn í hið opinbera sviðsljós, eins og þegar hann kom upp um tilraunir þýskra
stórfyrirtækja til að koma á fót eigin löggæslusveitum í verksmiðjum sínum. Um
leið reynir hann að snúa við hefðbundnum reglum borgaralegs samfélags, með
þvi að gera það sem þar flokkast undir einkavettvang opinbert. Fróðlegar
frásagnir hans af ritstjórnarfundum Bild, sem varða auðvitað samfélagið allt
vegna þess stóra hlutverks sem Bild leikur í opinberri umræðu, flokkast t. d.
undir einkavettvang Springer-forlagsins, það hafa dómstólarnir staðfest. Allt frá
fyrstu verksmiðjufrásögnum sínum hefur Wallraff einmitt verið að reyna að
gera framleiðsluvettvanginn opinberan. Hann tekur upp að nýju það vökula og
gagnrýna hlutverk sem borgarastéttin í upphafi ætlaði sínum málgögnum. En
eins og Habermas hefur lýst, hafa blöðin smám saman verið að glata þessu
hlutverki eftir því sem þau hafa þróast úr málgögnum í neyslumiðla.” Bild er
hámarkið í afskræmingu hins opinbera, borgaralega vettvangs.
I baráttunni við Bild dugir auðvitað skammt að segja eins og sumir islenskir
sósíalistar þegar þeir voru að andæfa sjónvarpinu „aldrei horfi ég“. Einhvern
veginn verða menn að skýra aðdráttarafl Bild öðru vísi en með heimsku
lesendanna. Flestar slikar skýringartilraunir telja styrk Bild fólginn í hversu vel
blaðið notfærir sér þá vanmáttartilfinningu sem er útbreidd meðal launþega í
jafn stóru auðvaldssamfélagi og þvi þýska. Hér selji Bild mönnum afþreyingu:
Bent er á að fréttir blaðsins séu langflestar víðs fjarri heimi vinnunnar um leið
og þær sýni möguleika einstaklingsins til að „hefja sig upp yfir“ þann heim, og
að blaðið forðist langar frásagnir úr heimi stjórnmálanna, sem flestum finnst
hvort eð er að þeir geti engin áhrif haft á, en sýni stjórnmálamennina sem
einstaklinga „eins og okkur hin“.54 Það er vísað til þess að persónusögur
blaðsins birti á sinn hátt þrá eftir útópísku samfélagi þar sem hver einstaklingur
skiptir máli, og þær séu raunar algengasta bragð vitundariðnaðarins til að ná
tökum á ímyndunarafli vinnandi fólks.55 Greiningar í þessum anda bjóða annarri
187