Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Síða 13
Dauða leikhúsið
leikhús út frá hugtökum eins og harmrænn“, „rómantískur", „upphafinn“ og
„ástríðuþrunginn" getum við verið viss um að hlaupa beint í fangið á hinu
dauða leikhúsi, því leikhúsi sem lýgur að fólki að rykfallnir safngripir séu
lifandi sannindi.
Eitt sinn þegar ég var að halda fyrirlestur um þessi efni fékk ég tækifæri
til að sanna skoðun mína með dálítilli tilraun. Meðal áheyrenda var kona
nokkur sem hafði hvorki lesið né séð Lé konung eftir Shakespeare. Ég fékk
henni fyrstu ræðu Góneríl og bað hana að flytja þessa ræðu eins og hún
kæmi henni fyrir sjónir. Hún las hana á einfaldan hátt og orðin fylltust
merkingu og töfrum. Síðan sagði ég henni að ræðan væri lögð í munn
harðbrjósta konu og bað hana um að koma til skila hræsninni í hverju orði.
Hún reyndi það og áheyrendur gátu sjálfir séð þá óeðlilegu áreynslu sem
leikarinn verður að beita gagnvart látlausri hrynjandi orðanna, ætli hann
sér að leika samkvæmt skilgreiningu:
„Yður herra,
elska ég meir en orð fá túlkað, heitar
en augu mín, sjálft lífsloftið og frelsið,
framyfir allt sem meta má til gildis,
já umfram líf mitt, heilsu, fegurð, heiður,
af hug sem faðir bestan veit hjá barni,
ást sem mun gera að engu töluð orð.
Mín elska er hafin yfir sérhvert mat.“
(Þýð. Helga Hálfdanarsonar)
Menn geta prófað sjálfir, látið tunguna gæla við orðin. Sú sem talar hefur
hlotið góða menntun, er vön að tjá sig í margmenni, tiginmannleg í fasi;
yfirveguð framganga er henni í blóð borin. Það sem hún segir ber ekki vott
um aðra eðliseiginleika en siðfágun og þokka. Samt er algengt að leikkonur
láti skína í bragðvísi og grimmd þegar þær fara með þessar línur og er
vandséð að annað valdi en fyrirfram ákveðnar skoðanir á siðferðislegum
viðhorfum Shakespeares. Sé Góneríl hins vegar ekki gerð að „ófreskju“ í
þessu fyrsta atriði og ekki lagður annar skilningur í orðin en sá sem blasir
við augum breytist ýmislegt síðar í leikritinu og þá er ekki víst að
skepnuskapur hennar né píslarvætti Lés verði jafn barnalegt og einfalt og
oft er raunin. Vissulega sýna gerðir Góneríl síðar í leiknum að hún á
fyllilega skilið að vera kölluð ófreskja — en hún birtist þá sem raunveruleg
ófreskja, margslungin og áhrifamikil.
Væri leikhúsið lifandi myndum við byrja æfingarnar dag hvern með því
að endurskoða og láta reyna á það sem við uppgötvuðum daginn áður. Við
379