Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Blaðsíða 17
Dauða leikhúsið
einhvern evrópskan stíl í von um að list þeirra verði glæsilegri fyrir vikið.
Samt ættu bandaríkjamenn ekki að þurfa að sækja sér fyrirmyndir til
Evrópu því að þeir hafa allt sem þarf til að skapa hrífandi og sjálfstæða
leiklist: hugrekki, styrk, glaðlyndi, peninga og getu til að horfast í augu við
óþægilegar staðreyndir. I New York er að finna fólk sem gæti hæglega
orðið með bestu áhorfendum í heimi — en því miður fer þetta fólk afar
sjaldan í leikhús vegna þess að því finnst miðaverðið vera of hátt. Það er
þessu fólki kannski ekki ofviða, en sýningar leikhúsanna hafa of oft valdið
því vonbrigðum. Hvergi á jarðríki er veldi gagnrýnendanna meira en í New
York og það ekki að ófyrirsynju. Þetta veldi byggist á því að áhorfend-
urnir, sem vilja treysta því að leikhúsin selji þeim ósvikna vöru hafa gert
fáeina brigðula og mistæka menn að óskeikulum dómurum. Þannig neyðir
fjárhagsleg nauðsyn áhorfendurna til að grípa til sama ráðs og listamennirn-
ir: kjósa sér verndarvætti til að standa vörð um hagsmuni sína. Og á meðan
halda þeir sem búa yfir mestri fróðleiksfýsn, gáfum og andlegu sjálfstæði
sig fjarri. Dauða leikhúsið lokast inni í vítahring og heldur áfram að grafa
sína eigin gröf án þess að nokkur fái að gert.
Áhorfandinn
Við getum einnig horft á málið frá annarri hlið. Ef það er rétt að góðir
áhorfendur séu forsenda góðs leikhúss má segja að allir áhorfendur fái það
leikhús sem þeir eiga skilið. En óvirkur áhorfandi á ekki auðvelt með að sjá
í hverju ábyrgð hans er fólgin. Hvernig birtist hún í reynd? Ekki viljum við
að fólk fari í leikhús af tómri skyldurækni. Og þegar inn í leikhúsið er
komið getur það ekki tekið sér tak til að verða „betri“ áhorfendur en það er.
Þannig má segja að áhorfendur geti í rauninni ekkert gert. Þó er allt undir
áhorfandanum komið.
Þegar Konunglega Shakespeare-leikhúsið fór í leikför um Evrópu með
Lé konung tók sýningin stöðugum framförum og varð hvergi betri en á
milli Búdapest og Moskvu. Það var hrífandi að fylgjast með þeim áhrifum
sem áhorfendur á þessum slóðum höfðu á leikarana. Þetta fólk kunni litla
sem enga ensku, en það bjó yfir þremur kostum: það unni leikritinu, þráði
að komast í kynni við útlendinga og hafði umfram allt hlotið þá lífsreynslu
sem gerði því fært að skilja sársaukafullan boðskap verksins. Það fylgdist
með leiknum í djúpri og einbeittri þögn sem leikararnir skynjuðu líkt og
skæru ljósi væri beint á minnstu athafnir þeirra. Erfiðustu og torræðustu
kaflar verksins öðluðust um leið nýja og dýpri merkingu í höndum þeirra
og þeir sneru frá Austur-Evrópu til Bandaríkjanna, þangað sem förinni var
síðan heitið, fullir hrifningar og atorku, vissir um að geta látið enskumæl-
andi áhorfendur njóta góðs af reynslu sinni. Eg varð að fara til Englands frá
383