Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Side 72
Tímarit Máls og menningar
Ég hóf þessa grein með því að fullyrða að gagnrýni bókmennta væri
nauðsynlegur þáttur þeirra og vil nú bæta við að hún ætti jafnframt að vera
afar jákvæður þáttur. Slíkt kemur til af meginhlutverki gagnrýninnar í
þjóðfélaginu: hún er, þegar vel lætur, einn meginvettvangur bókmennta-
umræðunnar og jafnframt mikilvæg kveikja að frekari hugleiðingum, um-
ræðum og skoðanaskiptum meðal almennings, en án þess alls fengju bók-
menntirnar vart þrifist. Með þetta í huga ætti að vera ljóst hversu mikið
þarfaverk væri að gagnrýnin leitaðist við að kveða niður raust „yfirvaldsins"
og uppræta goðsögnina um hlutlægt mat og algildan smekk.
Jafnskjótt og gagnrýnandinn birtist í skrifum sínum sem einstaklingur
með ákveðnar, ódulbúnar skoðanir og smekk, og persónulega afstöðu
gagnvart skáldverkinu, aukast mjög líkur á að honum takist að „virkja“
lesandann. Þegar lesanda er ljóst að málflutningur gagnrýnandans er
einstaklingsbundinn og síður en svo endanlegur, verður honum mun
hægara að sjá gagnrýnandann úr nokkurri fjarlægð, jafnframt að gera sér
grein fyrir margbreytileika verksins og þeirrar gagnrýni sem það býður
upp á, og taka sjálfur gagnrýna afstöðu. Slík gagnrýni er vísir að „samtali"
milli gagnrýnandans og lesandans, þar sem skoðanir geta verið skiptar; hún
vekur á allan hátt meiri áhuga og forvitni um bókmenntir og er miklu lík-
legri til að fjörga samskipti lesandans og skáldverksins.
3. Ritdómar um þrjár bxkur
Við hverfum nú að ritdómunum sjálfum, fyrst að gagnrýninni um Sólina
°g skuggann eftir Fríðu Sigurðardóttur. Þetta er önnur bók höfundar, sem
árið 1980 hafði hlotið mikið lof gagnrýnenda fyrir frumraun sína á rithöf-
undarsviðinu, smásagnasafnið Þetta er ekkert alvarlegt.
Sólin og skugginn
Þegar ritdómarnir sex um þessa bók eru bornir saman kemur í ljós að
einungis eitt atriði er öllum sameiginlegt: greint er í stórum dráttum frá
söguaðstæðum, veikindum aðalpersónunnar Sigrúnar og sjúkrahúsvist. Er
þessu atriði sleppir, fylgjast gagnrýnendur lítið að; slíkt er í sjálfu sér
eðlilegt og sýnir að hægt er að nálgast skáldverk á marga vegu. Allir gagn-
rýnendurnir nema einn (Olafur Jónsson) eru þó sammála um að þetta sé
„góð bók“, og er athyglisvert að velta ástæðum þess fyrir sér. Þær reynast
ærið misjafnar og er þar t. d. grundvallarmunur á Jóhönnu Kristjónsdóttur
(Mbl. 5. des. 1981) og Dagnýju Kristjánsdóttur (Þjóðv. 12—13. des.). Að
sögn Jóhönnu er „aðal“ bókarinnar „fallegt mál og léttur og fyrirhafnarlaus
stíll.“ Dagnýju finnst bókin aftur á móti fyrst og fremst „afar kraftmikil
438