Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Síða 52
Tímarit Máls og menningar
skyndilega en létt handlegg hans og sagði við hann: „Jæja, nú skulum
við ná í börnin á hátíðina. Eg held að það sé kominn tími til þess.“
Hann játaði síðar að sér hefði brugðið, en hann reis á fætur til þess að
hóa í flýti saman börnum sínum og barnabörnum og senda boð til
prestsins. Presturinn birtist undrandi og í nokkru uppnámi, en það
var kveikt á kertunum, dvergarnir látnir hamra og engillinn hvísla.
Það var sungið, borðaðar kökur og allt virtist í lagi.
IV
Nú er það svo að allur gróður er háður ákveðnum líffræðilegum
lögmálum og grenitré, sem hafa verið rifin úr jarðvegi sínum, hafa
eins og alkunnugt er tilhneigingu til að fella barrnálarnar, einkum ef
þau standa í hlýjum stofum, og hjá frænda mínum var hlýtt. Eðal-
greni stendur eitthvað lengur en venjuleg grenitré eins og dr. Hegen-
ring hefur sannað í hinni frægu grein sinni „Abies vulgaris et abies
nobilis“. En jafnvel eðalgreni lifir ekki endalaust. Þegar kjötkveðju-
hátíðin nálgaðist var sýnt að reyna varð að búa frænku mína undir
nýtt áfall. Barrnálunum fækkaði ört og menn tóku eftir því við
sálmasönginn á kvöldin að frænka mín hleypti aðeins í brýnnar.
Samkvæmt ráðum virkilega snjalls sálfræðings var nú gerð tilraun til
að drepa á það í léttum rabbtón að líða tæki að lokum jóla, sérílagi
vegna þess að tré voru farin að bruma, en það boðar að jafnaði
vorkomu. Orðið jól er afturámóti á okkar breiddargráðu skilyrðis-
laust tengt vetrinum. Föðurbróðir minn stakk mjög klókindalega
uppá því kvöld nokkurt að syngja kvæðin „Vorgyðjan svífur . . .“ og
„Vorið er komið . . .“, en þegar við fyrsta erindi fyrrnefnda kvæðis-
ins varð frænka mín svo þungbúin á svip að það var hætt við og
byrjað á „Bráðum koma blessuð . . .“. Þremur dögum síðar var
Jóhannesi frænda mínum falið að fremja smáþjófnað, en um leið og
hann teygði fram hendurnar til að taka korkhamar af einum dverg-
anna rak frænka mín upp svo æðisgengið óp að dvergunum var strax
komið í samt lag, kveikt á kertunum og byrjað að syngja í nokkrum
flýti en mjög hátt sálminn „Heims um ból“.
En helg jól voru löngu liðin. Hópar ungra drykkjurúta fóru um
bæinn með lúðrablæstri og bumbuslætti, allt var þakið blöðrum og
pappírsræmum. Grímubúin börn fylltu strætin á daginn, skutu,
æptu, margir sungu líka og samkvæmt einkaskýrslu voru amk. sextíu
42