Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Page 96
Tímarit Máls og menningar
lega var Joyce stílsnillingur en kvenfrelsissinni var hann varla og hinn
móderníska aldamótakynslóð karla var bæði rugluð, reið og æst yfir æ
hvassari kvenréttindakröfum og innrás kvenna í karlamenninguna. Á 19.
öldinni hafði bandaríski höfundurinn Hawthorne stunið yfir „bölvuðum,
krotandi kvennaskríl“ sem væri að leggja undir sig markaðinn og ástandið
átti eftir að versna. Henry James lætur einn karla sinna segja í Bostonbúun-
um: „Oll kynslóðin er kvengerð: karlmennskutónninn er að deyja út í
heiminum; þetta er kvenleg, taugaveikluð, móðursjúk, hræsnisfull öld.“ En
öll él birtir upp um síðir og James Joyce fagnaði þegar hann fékk The Waste
Land í hendurnar og mælti svo, að þetta ljóð „byndi enda á hugmyndina um
Ijóðlist fyrir kvenfólk."
Þennan ótta við konur og tjáningu þeirra, mál þeirra, sem birtist í
ofannefndum dæmum og fleirum, má rekja djúpt ofan í sálarlífið til
sambandsins við móðurina, segja Gilbert og Gubar. Og óttans við „móður-
málið“. Það er nefnilega ekkert til sem heitir „föðurmál“. Lengi héldu lærðir
menn í latínuna og skoðuðu hana sem föðurmál sitt — í sínum hópi. Þegar
evrópskir höfundar byrjuðu að skrifa á hinum „ruddalegu" heimatungum
sínum á miðöldum varð að réttlæta það með ráðum og dáð. Og módernist-
inn Ezra Pound hafði ekki alveg kyngt þessu þegar hann skrifaði að skáldið
Chaucer hafi í raun ekki horfið til móðurmálsins á miðöldum af því að þá
hafi hugsunarháttur verið alþjóðlegri en nú er og enskan hluti af eins konar
Evrópumáli — „föðurmáli". Afrek Chaucer var að þýða hugsun latínunnar á
hið frumstæða móðurmál. „Hann hafði fundið nýtt tungumál, sem hann
hafði að mestu fyrir sig einan, og bauðst stórkostlegt tækifæri. Ekkert var
skemmt, ekkert gatslitið." (Gilbert og Gubar, 1985, 533)
Á þennan hátt hafa karlar ævinlega reynt að búa til veruleika fyrir sjálfa
sig í tungumálinu, veruleika þar sem þeir hafa yfirburði og sérstöðu,
veruleika sem er hafinn fyrir venjulegt „gróft“ mál mæðra, eiginkvenna og
dætra. Og þar eru Lacan og Derrida og bandaríski Yale-skólinn engar
undantekningar, segja Gilbert og Gubar. Þeir karlar og fylgisfólk þeirra séu
í raun að reyna að skapa nýtt feðraveldi í bókmenntafræðunum þar sem
endurvakið skuli „vald Orðsins sem sé Alföðurins" (Gilbert og Gubar,
1985, 535).
I annarri grein (óbirtri)14 hnykkja þær á þessum hugmyndum þ. e. að
módernisminn og framúrstefna í meðferð tungumálsins hafi verið og sé
sjálfsvörn gegn því afli sem kvennabókmenntirnar voru að verða og urðu
bæði á sviði „alvarlegra“ bókmennta og skemmtibókmennta. Módernism-
inn í bókmenntunum sé „ótti við áhrif“ frá konunum. Poststrúktúralisminn
í bókmenntafræðunum sé mótleikur gegn femínískum kvennarannsóknum í
og utan háskólanna.
86