Tímarit Máls og menningar - 01.11.1987, Blaðsíða 11
Byltingin, bókmenntirnar og sósíalrealisminn
Fram þeir halda í fleygum móði
Fylgir hungurrakkinn seinn.
Og með fána er ber af blóði
bjarma, fremstur gengur einn,
óttalaus og ekki sár,
orpinn mjöllu, perlugljár
sem um hjúp úr hvítum rósum
hviki blik af stjörnuljósum,
móti stormi mjúkleg spor —
Mannsins sonur, Drottinn vor!
Hvað var Blok að fara? Var hann að smíða úr blóði og skít nýtt guð-
spjall, sem réttlætir ógnaröld bolsévismans, eins og ýmsir andstæðingar
byltingarinnar töldu? Var hann að reyna að hressa upp á Krist með því að
koma honum í bland við byltingu, sem skáldið skildi ekki nema til hálfs,
eins og ýmsir bolsévikar töldu? Má vera hér sé við hæfi að vísa í hugleið-
ingar Alexanders Bloks sjálfs um hlutverk rithöfundar á því herrans ári
1918. Hann segir að í fyrsta lagi verði listamaðurinn að vita, að það Rúss-
land sem var sé dautt og komi aldrei aftur, dautt með sinni menningu,
stjórnskipan og trú. Því verði listamaðurinn að snúast af heift gegn öllum
þeim sem vilja galvanísera dauðan skrokk Rússlands, og til að þessi reiði
snúist ekki í lágkúrulega beiskju verði hann að varðveita þekkingu sína á
mikilleika tímans og gleyma aldrei hinni miklu þýðingu tveggja orða : „fé-
lagslegt misrétti". Auk þess beri honum að búa sig undir enn stærri atburði
en þegar hafi orðið og að lúta þeim þegar þar að komi.
Með öðrum orðum: byltingin er svosem ekkert teboð, eins og Tólf-
menningarnir sýna, en mikil tíðindi hafa gerst sem verða ekki aftur tekin,
og skáldið vill ekki verða utangátta á miklum tímamótum. Því á það að
brýna fyrir sér óréttlæti þess heims sem er að hrynja og auðvelda sér þar
með að skrifa sig í takt við framvindu sögunnar, sem byltingarmennirnir
sjálfir voru sífellt að ákalla. Og svo aftur sé vikið að Tólfmenningunum þá
má vel líta svo á, að þegar Kristur ber undir lokin rauðan fána fyrir „löngu
tugthústækum" rauðliðum, þá birtist í þeirri mynd von skáldsins um að
hamfarir byltingarinnar séu nauðsynleg hreinsun, upphaf þess sem gott er
og fagurt, von um að höndla megi æðri tilgang mannlegra harmleikja.
Sergei Jesenín var bóndasonur frá Rjasan sem hlaut kornungur mikla
hylli fyrir einlæg og dapurleg ljóð sín um kornslátt og kýr, akra og engi og
var heilög guðsmóðir kannski á vappi í þessu sæla landslagi með skýluklút
á höfði. Þetta efnilega alþýðuskáld tók byltingunni fagnandi, bolséviki var
hann ekki, en stóð nálægt samstarfsflokki þeirra, Vinstri-þjóðbyltingar-
401