Tímarit Máls og menningar - 01.11.1987, Blaðsíða 38
Tímarit Máls og menningar
formúlum sósíalrealismans bættust bæði gyðingafjandskapur og rússnesk
þjóðremba. Borgaralegir heimsborgarar voru þeir kallaðir á þessum tíma
sem þóttu vanrækja þá nýju stefnu, að ekki aðeins væri sovéskt þjóðfélag
og þar með sovésk menning fremri úrkynjuðu borgaralegu samfélagi á
Vesturlöndum — heldur hefðu rússneskar bókmenntir alveg frá því
snemma á nítjándu öld verið merkilegri, mannlegri og frumlegri en vest-
rænar bókmenntir. Og þegar leitað var að sökudólgunum sem ekki höfðu
„skilið“ forystuhlutverk rússneskra manna í listum og vísindum, reyndust
þeir flestir bera gyðingleg nöfn. Svo mikið er víst, að á þessum árum er
jiddíska, mál Austurevrópugyðinga, lögð niður sem bókmenntamál í Sov-
étríkjunum og helstu höfundar sem á því skrifuðu voru handteknir og
skotnir árið 1952 (David Bergelson, Perets Markish, Itzakh Feffer og fleiri).
Þetta var mikil formyrkvun. Að vísu slokknar aldrei á öllum ljósum — á
þessum árum komu út fyrstu sögur Veru Panovu, sem lýstu af ylgóðri
samúð og mannskilningi hlutskipti kvenna og barna í stríðinu og á þeim
erfiðu árum sem við tóku. En þegar á heildina er litið voru árin 1946-1954
þau verstu sem yfir sovéskar bókmenntir hafa gengið. Svo langt gekk lygin
sem fegraði veruleikann blygðunarlaust, að fundin var upp svonefnd
„átakaleysiskenning“. Röksemdir hennar eru eitthvað á þessa leið: Sovét-
ríkin eru gott og réttlátt samfélag þar sem andstæðir stéttahagsmunir eru
ekki lengur til. Verund mótar vitund, sagði Karl Marx, og því hefur þetta
nýja þjóðfélag skapað nýjan mann, ósérplæginn, heiðarlegan, fórnfúsan
hugsjónamann, sem setur almanaheill ofar einkahagsmunum. Þessir þættir
eru ríkjandi í sovésku mannlífi og þess vegna tekur því ekki að gera sér of
mikla rellu út af leifum hinna neikvæðari þátta í mannlegri breytni. Því
fjalla sovéskar bókmenntir ekki um átök milli jákvæðra persóna og nei-
kvæðra. Hið neikvæða er horfið úr mynstrinu. Sovéskar bókmenntir eiga
að lýsa átökunum milli þess sem er gott og þess sem er enn betra.
Til er í íslenskri þýðingu skáldsaga sem er skrifuð í þessum anda, „Saga
af sönnum manni“ eftir Boris Polevoj, sem út kom árið 1950 og hlaut Stal-
ínverðlaun. Þar segir frá atburðum sem gerðust í raun og veru. Flugmaður,
Alexei Merésév að nafni, er skotinn niður í loftbardaga yfir landi sem Þjóð-
verjar ráða. Hann slasast og gengur eða skríður dögum saman austur á
bóginn og er bjargað af sveitafólki sem felur sig fyrir þýskurum úti í skógi.
Honum er komið til sinna manna, en fæturna verður að taka af honum fyr-
ir neðan hné. Hann er örvæntingu nær, en ákveður samt að sigrast á ör-
kumlum sínum með viljastyrk og komast aftur undir stýri orustuflugvélar,
þótt á gervifótum gangi, og eftir feikna erfiði og nokkurt málavafstur við
bókstafstrúarmenn á skrifstofum tekst honum að ná settu marki.
Það sem grefur undan hugsanlegum áhrifamætti þessarar sannkölluðu
428
i