Tímarit Máls og menningar - 01.03.1999, Page 78
HELGl INGÓLFSSON
„Þú telur þá að guðirnir séu ekki til?“ spurði Anaxagóras.
„Það voru ekki mín orð. En ef þeir eru til, þá er mönnum hollara að
virða þá. Ef þeir eru ekki til, nú“ Sókrates dró seiminn, „þá er enginn
skaði skeður.“ Hann leit út í rökkrið. Kvöldmyrkrið var skollið á; ein-
hverjir úti á torginu kveiktu á kyndlum, sem hermennirnir hirtu af
þeim og nýttu í eigin þágu. Ramma stybbu af kraumandi hrátjöru og
viðarkvoðu lagði að vitum. En ekki var aldimmt yfir borginni. Um
himinhvelfinguna leið skjöldur mánagyðjunnar löturhægt, fullkomin
kringla, fölgul eins og gamall hringskorinn geitaostur. Síkvikt blik
stjarna mátti greina í gegnum ósið frá kyndlunum, líkt og dregið hefði
verið svart líkklæði fyrir sólu, en stungin á það nálargöt til að hleypa
ljóstírum í gegn. Handan við skuggamyndir dimmrauðra móleirs-
þaka og trjátoppa svartra ólívulunda blöstu við hamrar klettahæðar-
innar, baðaðir draugalegum silfurbjarma mánaskins. Uppi á hæðinni
hafði verið kveikt á kyndlum og ljóskörfum; þaðan heyrðust enn fjar-
læg gjallandi högg frá hömrum steinsmiðanna. „Jæja, mér er víst ekki
til setunnar boðið. Við ætlum að nýta skímu Selene í kvöld og höggva
nokkra marmarasteina í tunglbirtunni. Það verður víst að halda áfram
með verkið.“ Sókrates sneri sér að Períklesi og bætti við af dálítilli
meinbægni: „Allt til þess að auka veg borgar vorrar, valdhöfum og
alþýðu til dýrðar.“
„Mér þætti gaman,“ sagði Parmenídes, „að spjalla við þig nánar,
steinsmiður. Ég og Zenon lærisveinn minn erum gestir í húsi
Pýþódórosar handan borgarmúra í Kerameikos-hverfinu. Þú gætir ef
til vill heimsótt okkur þangað, þegar þú hefur lausa stund. Hugsanlega
í næstu viku, þegar hátíðin hefst.“
„Mín væri ánægjan,“ svaraði Sókrates. „Mér er upphefð í því að
hitta þig, virðulegi Parmenídes.“ Hann sneri sér að hinum. „Ég kveð
ykkur, herramenn. Nú verð ég að þjóta.“
Og með þeim orðum var hann rokinn, ruddi sér braut gegnum líf-
vörðinn, stjáklaði sporléttur yfir torgið og hvarf í sorta fyrir horn.
Anaxagóras hugleiddi kveðju hans til Parmenídesar og minntist þess
ekki að blindi vitringurinn hefði verið nefndur á nafn meðan á sam-
ræðunum stóð. Ajæja, margir vissu víst að öldungurinn merkilegi
hefði heimsótt borgina til að vera viðstaddur panaþensku hátíðina,
sem nú var fyrir dyrum.
Períkles horfði lengst á eftir alþýðumanninum.
68
www.mm.is
TMM 1999:1