Tímarit Máls og menningar - 01.03.1999, Page 81
ELDUR HIMINSINS
Við störðum spenntar á logann sem steyptist hratt niður eítir himn-
inum langt, langt í burtu. Það var eins og hæsti skínandi fossinn í öll-
um heiminum væri á leiðinni til okkar.
„Ég óska!“ hrópaði ég æst.
„Ég óska,“ hvíslaði hún.
Svo dó þessi ægibjarti eldur himinsins jafn snögglega og hann hafði
fæðst. Allt í einu var hann ekki lengur til.
Samt vissi ég um leið að hann hafði breytt veröldinni okkar á þessu
örskamma augnabliki. Ekkert yrði aftur alveg eins og það var.
„Sérðu hann ekki?“ spurði ég.
„Kannski,“ svaraði hún, óráðin að vanda.
„Víst sérðu hann. Þú sérð það sem ég sé. Við sjáum allt saman. Það
veistu.“
Hann var alveg eins og við höfðum svo lengi ímyndað okkur að
hann hlyti að líta út: Hávaxinn, með dökkt hár og klæddur í glansandi
svört föt sem féllu þétt að vöðvastæltum líkamanum.
„Þetta er hann,“ sagði ég. „Prinsinn okkar.“
„Ég veit það alveg,“ sagði hún.
Hann hafði verið svo óskaplega lengi á leiðinni. En það skipti ekki
máli lengur. Núna stóð hann þarna efst uppi á höfðanum og virti okk-
ur fyrir sér með hvössu, svörtu augunum sínum sem sáu allt.
Orlandó! Prinsinn okkar.
Skyndilega fann ég fyrir sárum, gamalkunnum krampa óttans í
maganum.
Kannski litist honum ekkert á okkur? Hann var auðvitað vanur
glæsilegum og saklausum prinsessum. Við vorum bara tólf ára og
hvorki glæsilegar né saklausar. Svo var hún líka alveg óþolandi vælu-
skjóða. Hrædd við allt og alla. Stundum jafnvel við að draga andann.
Mér létti þegar hann brosti til okkar svo það glampaði af skjanna-
hvítu, sterklegu tönnunum í tunglsljósinu.
„Til þjónustu reiðubúinn!“ sagði hann og hneigði sig djúpt. Alveg
eins og við höfðum svo oft ímyndað okkur að hann myndi gera. Prins-
inn okkar!
Litla rútan var á leiðinni eftir mjóu malargötunni sem lá meðfram
bústaðnum út á malbikaðan þjóðveginn. Falskur söngur drukkinna
gestanna féll um stund saman við vélarhljóðið, en hvarf síðan í fjarsk-
ann og skildi okkur eftir í þögn næturhúmsins.
TMM 1999:1
www.mm.is
71