Tímarit Máls og menningar - 01.03.1999, Page 86
ELÍAS SNÆLAND JÓNSSON
„Hann er að kalla á lögregluna,“ sagði ég.
„Þeir ná mér aldrei,“ sagði Orlandó.
„Ég segi engum neitt.“
„Ekki ég heldur,“ hvíslaði hún.
„Mér finnst alltaf best að fá eldinn í lið með mér,“ sagði Orlandó.
„Hann er svo fljótur að gera það sem gera þarf.“
„Komdu!“ hrópaði pabbi og stakk farsímanum aftur í vasann. „Það
er öruggara að bíða í bústaðnum.“
Við risum á fætur.
„Þú færð ekki að vera ein úti fyrr en lögreglan hefur leitað á öllu
svæðinu,“ hélt hann áfram. „Þessi hættulegi brennuvargur er örugg-
lega enn hérna einhvers staðar í nágrenninu.“
„Alveg satt!“ hvíslaði hún. „Ég segi ekkert.“
„Annars færðu rosalega að kenna á því,“ sagði ég. „Enginn í öllum
heiminum kann að hefna sín eins ógurlega og Orlandó.“
„Ég veit það.“
Lögreglan kom og leitaði.
Mamma hafði drifið sig á fætur og drakk svart kaffi í stofunni á
meðan pabbi var úti með lögreglumönnunum.
„Verst að þú skildir missa af ferðinni út í eyju,“ sagði hún eftir langa
þögn. Eins og til að segja eitthvað.
„Mig langaði ekkert,“ svaraði ég.
„Var það ekki?“
„Mig hefur aldrei langað út í eyju með pabba. Bara þegar við fórum
öll saman.“
Mamma sat álút við borðið, hélt með báðum höndum um kaffiboll-
ann og horfði út um gluggann.
„Því trúi ég ekki,“ sagði hún annars hugar. „Þú sem ert svo mikil
pabbastelpa.“
„Af hverju viltu aldrei trúa því sem ég segi þér?“
Hún sneri höfðinu og virti okkur fyrir sér stutta stund með
timbruðum augunum. Mér tókst ekki að ráða í málaðan svipinn hvað
hún var að hugsa.
„Láttu ekki svona,“ sagði hún loks og leit aftur út í garðinn. „Ég vil
engin leiðindi.“
Engin leiðindi! Við höfðum víst heyrt það áður.
Pabbi var í fúlu skapi þegar lögreglan fór aftur án þess að hafa fund-
76
www.mm.is
TMM 1999:1