Tímarit Máls og menningar - 01.03.1999, Page 127
HRINCSTIGINN
og í tilhugalífinu. Að framtíðardraumar menntaskóla- og háskólaár-
anna eiga flestir ekki eftir að rætast. Að lífið er oftast hvorki gnægðir
ástarsælu né velgengni, í hæsta lagi ber það í sér möguleika á einhverj-
um votti af slíku. Sem er eins gott því innst inni veit maður að ef allar
óskir rættust þá rynni óþyrmilega upp íyrir manni að hamingjuna er
ekki að finna í þeim.
Hvað geta menn gert þegar þeir vakna upp af draumum sínum og
þola ekki vökuna? Sætta sig við veruleikann eða flýja inn í annan
draum? Yfirgefa fjölskyldu sína og hefja nýtt líf frá grunni? Skipta jafn-
vel um land eins og pabbi gerði oftar en einu sinni? Hann reyndi.
Pabbi. Aftur og aftur. En það versnaði bara. Og núna var hann kominn
á geðdeild.
Þegar ég hafði kvatt systur mína vaknaði barnið og fór að gráta. Konan
ekki heima. Ég undraðist og skelfdist hvað gráthljóðið fór í taugarnar á
mér. Ég tók stúlkuna í fangið og gekk með hana um stofugólfið, sefaði
grát hennar og ókyrrðina í sjálfum mér um leið.
Ég beygði mig niður að plötuspilaranum og setti nálina á. Ég rugg-
aði barninu í gegnum alla plötuhliðina. Henni virtist líka tónlistin vel
þó að þetta væru engin vöggulög. Hún vakti þó áfram, hvíldi höfuðið á
öxl minni, þögul og vær.
Eyru mín voru nú 20 árum eldri en þegar ég heyrði plötuna fýrst og
tónlistin ekki lengur þungmelt. Hún var framandi og kunnugleg í
senn, eins og hvísl úr gleymdum draumi.
Ég vaggaði barninu á öxlinni, steig þung og afkáraleg dansspor. Ég
hugsaði um hringstigann sem ber mann áleiðis þó maður fari hring
eftir hring. Ég fór í leiðslu, eins konar vökusvefn. Á huga rninn leituðu
eintóm hringform: hljómplatan með sífellt nýjum hringjum sem
fækkar jafnt og þétt uns þá þrýtur; hjólin undir sendibíl föður míns
sem snerust uns keðjurnar slitnuðu; jörðin sem snerist undir fótum
mínum án þess ég yrði þess var.
Út um gluggann blöstu við sofandi hús í síðdegisgrámanum og
lognkyrr sjórinn í fjarska. Daufur barnsilmurinn lék um vitin, lykt af
óráðinni framtíð.
Ég týndi stund og stað. Mér fannst ég ganga með stúlkubarnið upp
hringstiga. Þrepin virtust endalaus en ég fann hvorki til þreytu né
leiða. Ég vildi ekki ná leiðarenda.
TMM 1999:1
www.mm.is
117