Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Blaðsíða 51
Fyrst mun ég þó fjalla nokkuð um merkan grip úr Bessastaðakirkju og
hversu með hann var farið, því að hann tengist einnig varðveizlusögu
kirkjunnar. Meðferð þess grips sýnir einnig glöggt viðhorf manna til
forngripa landsins og dýrgripa kirknanna og hver afdrif sumra þeirra
urðu fyrir tíma fornleifalaganna 1907.
Oblátuöskjurnar
Árið 1774 gáfu amtmannshjónin á Bessastöðum, Magnús Gíslason og
Þórunn kona hans, kirkjunni fallegan minningargrip, oblátuöskjur eða
bakstursdósir úr gylltu silfri, og segir áletrunin á lokinu gerla um tilkomu
hans: „Tillagt Bessastaðakirkju af amtmanni Ólafi Stephensen og frú
Sigríði Magnúsdóttur fyrir legstað þeirra foreldra [svo], sáluga amtmanns
Magnúsar Gíslasonar og frúr Þórunnar Guðmundsdóttur samt þeirra
tveggja dætra, anno 1774.“ Í reynd er hér um að ræða foreldra frú
Sigríðar, amtmannshjónin sem búið höfðu á Bessastöðum, en öskjurnar
eru smíðaðar af þekktasta gullsmið af íslenzku bergi brotnum, Sigurði
Þorsteinssyni gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn, tvívegis öldurmanni í
gullsmiðafélaginu danska, sem fæddist 1714 á Skriðuklaustri og lézt 1799
í Kaupmannahöfn.
Á síðasta hluta 19. aldar hófu hjónin Jón Vídalín konsúll og kona hans
Helga, f. Madsen, af dönskum ættum, að safna forngripum og listmunum
hérlendis af miklu kappi. Voru það ekki sízt gamlir og merkir kirkju-
gripir, sem þau hjón ágirntust, og fengu þau marga gripi að kaupum eða
komust yfir á annan hátt, og hvað kirkjugripi snertir er ekki víst að leyfi
kirkjuyfirvalda hafi ávallt verið fyrir hendi til afhendingar.
Meðal þeirra gripa, sem þau hjón fýsti mjög að eignast, voru öskjurnar
merku í Bessastaðakirkju. Þau eignuðust þær líka að lokum, en á nokkuð
sérstæðan hátt að segja má.
Matthías Þórðarson, sem síðar varð þjóðminjavörður, var við nám í
Kaupmannahöfn á árunum fyrir aldamótin 1900. Hann birti merkilega
og þá nokkuð nýstárlega grein í Skírni 1905, Verndun fornmenja og gamalla
kirkjugripa. Hún var samin upp úr fyrirlestri er hann hélt í Félagi
íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn 9. júní 1905. Fer Matthías víða
hörðum orðum í grein sinni um skeytingarleysi landsmanna um dýrgripi
sína og merkar menningarminjar. Tilefni erindisins var ekki sízt það, að
haldin var sýning í Tívolí í Kaupmannahöfn árið 1905, Dansk
Koloniudstilling samt Udstilling fra Island og Færöerne. Þessi sýning fór fyrir
brjóstið á mörgum Íslendingum ytra og kölluðu ýmsir hana „Skrælingja-
50 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS