Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Blaðsíða 102
ræktunin hafi haldið áfram um nokkurt skeið eftir 1357, en henni hefur
verið hætt alllöngu fyrir 1755. Örformgerð jarðvegsins bendir til að jarð-
vegur í eldri jarðlögum sé meira blandaður en í þeim yngri. Túnrækt
krefst þess ekki að jarðvegi sé raskað svo stöðugt og síendurtekið sem hér
virðist hafa verið gert. Kartöflu- og kálrækt kallar reyndar á að jarðvegur
sé pældur árlega, en framkvæmdirnar á Ketilsstöðum áttu sér stað áður en
ræktun þessara grænmetistegunda hófst hér á landi. Frjókorn, sem senni-
lega eru byggfrjó, fundust í öllum þremur frjósýnunum sem tekin voru á
Ketilsstöðum. Það eru því sterkar líkur á að þarna sé um kornakur að
ræða. Efnagreining jarðvegssýna og örformgerðarsýni leiddu og í ljós að
áburði hafði verið dreift á Ekrurnar. Bæði var það venjulegur matar-
úrgangur, en einnig aska úr eldstæði þar sem brenndur var mór.Að öllum
líkindum var einnig borið tað á völlinn.Vísbendingar eru um að þetta
hafi verið gert í ríkara mæli fyrir 1357 en eftir. Athygli vekur að jarð-
vegur í Akurey er frjósamari en í Ekrunum á Ketilsstöðum. Af niður-
stöðum úr frjósemismælingum jarðvegsins á Ketilsstöðum er áætlað að
uppskera hafi getað verið 0,6-1,8t ·ha-1.
Hinn meinti akur í Fagradal er um margt áþekkur Ekrunum á Ketils-
stöðum, mótaðir stallar í brekku mót suðri. Halli brekkunnar í Fagradal
er þó mun meiri. Í sniðum í könnunarskurðinum þar sést að jarðrask
hefur hafist eftir að gjóskan K-R~920 féll en fyrir K~934 gjóskuna.
Leiða má að því líkur að jarðraskið hafi haldið áfram fram á þrettándu
öld. Ekki fundust frjókorn af byggtegund í sýnum frá Fagradal og ekki
voru greind efni í jarðvegi þaðan né rannsökuð örformgerð hans að
þessu sinni. Því verður ekki fullyrt um tilgang stallanna í Fagradal.
Niðurstöður úr efnagreiningu jarðvegs og örformgerðarrannsókn á
sýnum frá Ketilsstöðum og Akurey sýna að áburði hefur verið dreift á
hina meintu akra þótt í litlum mæli væri. Glöggt má sjá að á
Ketilsstöðum dregur úr áburðarnotkun eftir 1357, eins og gildi fosfat-
innihalds jarðvegssýna ber vitni um (17. mynd). Með svo litlum áburði
hefði að vísu mátt viðhalda kornrækt en hún hefur einungis gefið lág-
marksuppskeru og sennilega afar stopula. Eins og áður segir er áætlað að
uppskera í Akurey gæti hafa verið á bilinu 0,7-1,9t ·ha-1 miðað við 100g
C m-2 áburðarnotkun. Áætluð uppskera á Ketilstöðum hefur verið minni
vegna minni áburðarnotkunar eða á bilinu 0,6-1,8t ·ha-1 miðað við
50 g·C·m-2. Ljóst er að frjósemi jarðvegsins hefur verið í lágmarki og
fullyrða má að það hefur verið veigamikill þáttur þess að hér þreifst ekki
kornrækt.Vegna hnattstöðu og loftslags er Ísland á mörkum þess að hér
megi rækta korn. Það hefur því ekki mátt mikið út af bregða til að
FORNIR AKRAR Á ÍSLANDI 101