Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Blaðsíða 7
hlutafélagsins, sem stofnað hafði verið sumarið 1751, varð víðtækari og
eftir það oftast kallað Innréttingar. Meðal annars var ráðist í meiri umsvif í
ullarvinnu. Ákveðið var að setja á fót enn aðra og annars konar vefsmiðju
– klæðavefsmiðju – undir stjórn meistara í klæðagerð. Með stofnun klæða-
vefsmiðjunnar virðist hafa dregið úr áherslu á fræðslu og tækni, sem
aðlaga mætti íslensku sveitasamfélagi, en áhersla aukist á að kenna lands-
mönnum fullgildan ullariðnað með svipuðu sniði og tíðkaðist víða í
Evrópu. Klæðavefsmiðjan tók til starfa á Bessastöðum vorið 1752.4 Á
árunum 1755–1756 voru báðar vefsmiðjurnar fluttar og að mestu leyti
starfræktar á svæðinu þar sem nú er Aðalstræti í Reykjavík, þar til starf-
semin var lögð niður árið 1803.5
Rekstur Innréttinganna gekk misjafnlega. Ýmsu hefur verið um kennt
og orsakirnar sennilega margvíslegar. Magnús Stephensen áleit að „Sundur-
þyckja og Prócessar“ hefðu gjöreytt því sem stofnað var til með Innrétt-
ingunum.6 Í ritum fræðimanna seinni tíma eru aðrar orsakir nefndar og
sjónarhornin eru breytileg. Meðal annars hefur verið bent á að nýjung-
arnar sem vefsmiðjurnar færðu inn í íslenskt samfélag hafi sennilega verið
í andstöðu við ríkjandi hagkerfi og félagslegt umhverfi.7 Hrefna Róberts-
dóttir, sagnfræðingur, hefur fjallað ítarlega um aðdragandann að stofnun
Innréttinganna og hugmyndirnar sem lágu að baki starfsemi vefsmiðjanna.
Hún bendir meðal annars á ágreining sem varð milli iðnmeistarans, sem
átti að stjórna verkum í klæðagerðinni, og stjórnar hlutafélagsins um Inn-
réttingarnar um hvernig standa ætti að fræðslu lærlinga í vefsmiðjunni og
hver ætti að fara með völdin, vefsmiðjustjóri eða stjórn hlutafélagsins.8
Íslenskum fræðimönnum, sem fjallað hafa almennt um sögu Innrétt-
inganna, virðist ljóst að í vefsmiðjunum hefur verið tvenns konar starf-
semi en ef til vill ekki með öllu ljóst hvers eðlis starfsemin var. Í þeirri
umfjöllun um vefsmiðjurnar, sem höfundur þekkir, er ekki gerður skýr
greinarmunur á framleiðslugreinunum tveimur eða bent á hvernig þær
eru tengdar umfangsmikilli sögu ullariðnaðar, verklags og áhalda í Evrópu.
Áhugavert er því að kanna nánar eðli þeirrar starfsemi sem ætlað var að
umbylta ullarvinnu Íslendinga. Hefði ekki allt átt að horfa til betri vegar
með tilkomu nýrra áhalda til ullarvinnu, tækni sem losaði landsmenn úr fjötrum
fornaldarlegra vinnubragða, létti og flýtti fyrir vinnu við tóskap og vefnað?
Í eftirfarandi samantekt verður fjallað um hvers konar „vefnaðar tilfær-
ingar“ og „farfaverk“ fóru fram í vefsmiðjunum tveimur. Hvers konar
voðir voru það sem nefndust klæði? Hvað var tau? Hver voru einkenni
framleiðslunnar? Var ef til vill færst of mikið í fang miðað við þá kunn-
áttu sem fyrir var í landinu?
6 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS