Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Blaðsíða 71
Um legstein Magnúsar Gíslasonar vitnar Kristján í bréf Matthíasar
Þórðarsonar, þar sem hann fer fram á að legsteinninn verði ekki
færður af gröf þeirra amtmannshjóna heldur búið um hann þar sem
hann hafi verið hingað til og séð til að hann verði ekki fyrir neinum
skemmdum á þeim stað.Viðbrögðin geti hins vegar allir séð, þar sem
steinninn sé nú kominn upp á vegg. Þó hafi fyrir afskipti þjóðminja-
varðar verið sett umgerð um gröf amtmannsins og gengið svo frá, að
hún týndist ekki.
„Þetta er allur sannleikurinn um skipti húsameistara við þjóðminja-
vörð og starfsmenn hans út af Bessastaðakirkju, og geri ég ráð fyrir, að
menn sjái, hve drengilegt það er að læða því inn í álit almennings, að við
höfum verið ráðunautar hans um eyðilegginguna.“
Þannig lýkur Kristján Eldjárn grein sinni. „Vandalismi, eyðilegging,“
þetta er dómur hans um aðfarirnar. Og Jón Sigurðsson alþingismaður á
Reynistað, sem átti frumkvæðið að því að sett voru sérstök lög um byggða-
söfn og vann sjálfur ósleitilega að varðveizlu þjóðlegra og sögulegra verð-
mæta, kallaði breytinguna „skemmdarverk“. Gylfi Þ. Gíslason, sem síðar
var menntamálaráðherra í alls tólf ár, víst lengur en nokkur annar, kallaði
hana „óþurftarverk“. Má því sjá að mörgum hafa ofboðið þessar breyt-
ingar, sem virðast í reynd hafa komið ýmsum á óvart, hvort sem nú var
um að kenna vangá og athugunarleysi, gagnrýnisleysi þeirra opinberu
valdhafa, sem ákváðu gerð og framgang viðgerðar, eða einbert skeyt-
ingarleysi. En valdhafar virðast í reynd hafa látið sér nokkuð í léttu rúmi
liggja hvernig með slíkar menningarminjar var farið.
Þetta virðast síðustu blaðaskrifin og opinberar umræður að sinni um
viðgerðarmál Bessastaðakirkju, en því eru breytingunum gerð svo ítarleg
skil hér, að kirkjan ber þeirra merki æ síðan.Vitað er að þessi hervirki,
sem svo verður að kalla, urðu Matthíasi Þórðarsyni til mikilla sárinda,
sem og Kristjáni Eldjárn eftirmanni hans. Kristján vildi hins vegar ekki
tala margt um þessi mál síðar, en hann sagði mér þó frá því er þeir
Friðrik Brekkan sóttu allt það af innansmíðinni sem vert þótti að geyma,
og hann kvað þá hafa legið í bing úti á túni.
Vegna deilna þeirra Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðjóns Samúelssonar
hefur Sveinn Björnsson forseti ætlað að skrifa Kirkjumálaráðuneytinu
um málið og er uppkast að bréfi hans til, dagsett 28. febrúar 1948. Er ljóst
af því, að forseti hefur verið mjög gramur yfir hvernig til tókst með
breytingarnar á kirkjunni, þótt talið sé að hann hafi jafnvel átt nokkurn
þátt í þeim, en margt hefur þó farið öðruvísi en hann óskaði. Birgir
Thorlacius ráðuneytisstjóri í Forsætis- og menntamálaráðuneytum hefur
70 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS