Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2004, Blaðsíða 69
frásögn Guðjóns, að þjóðminjavörður hafi orðið ásáttur um hina nýju
umgerð legstaðar Magnúsar Gíslasonar og að nýr legsteinn með nafni
hans yrði settur á gröfina, hefur Matthías skrifað: „Fékk því framgengt er
ómögulegt var að hindra flutning steinsins. Sbr. e. fr. brjef mitt.“
Bréf það hafði Matthías Þórðarson skrifað húsameistara 21. nóvember
1946. Kveðst Matthías þar hafa heyrt að komið hafi til mála að færa
legstein Magnúsar amtmanns Gíslasonar og konu hans af leiði þeirra í
Bessastaðakirkju. Leyfir hann sér að mælast til þess, að svo yrði ekki gjört
en búið um hann á nokkurn hátt, eins og áður hefur verið, til að leg-
steinn þessi verði ekki fyrir neinum skemmdum framvegis á þeim stað
sem hann hafi verið hingað til.
En svo komu tvær greinar í Alþýðublaðinu 2. marz um þessar að-
gerðir, önnur eftir Gunnlaug Halldórsson arkitekt og hin eftir Kristján
Eldjárn, sem þá var nýskipaður þjóðminjavörður en hafði verið aðstoðar-
maður Matthíasar Þórðarsonar í safninu síðustu tvö árin. Gunnlaugur
kveður í grein sinni skjóta nokkuð skökku við, að húsameistara ríkisins
hafi þótt réttast að taka til fyrirmyndar við viðgerð kirkjunnar þá stefnu,
sem höfð var við viðgerð gömlu Bessastaðastofu, sem hann hafi þó í skrifum
sínum valið hina verstu lýsingu, með því að þá hafi verið kastað út úr
stofunni öllu því sem minnti á þá merku 19. aldar menn sem á staðnum
bjuggu eða dvöldust. Kveður Gunnlaugur viðgerðarstefnu sína á Bessa-
stöðum engum deilum hafa valdið, enda viðgerðin þar framkvæmd í nánu
samráði við Svein Björnsson forseta og ríkisstjórnina. Forsetinn hafi lagt
áherzlu á að varðveita bæri allt sem gamalt gæti talizt í stofunni, og það
sem fært hefði verið úr lagi skyldi fært í sitt gamla horf, ef kostur væri.
Nokkrar hurðir, sem voru nýleg smíði, hafi verið teknar en í staðinn
smíðaðar nýjar eftir gamalli fyrirmynd. Kveður hann þeirri stefnu hafa
verið fylgt í hvívetna og skjóti skökku við lýsingar Guðjóns húsameistara.
Ekki sé um að ræða að neinn gamall húsbúnaður hafi verið í stofunni og
numinn brott, húsið hafi verið afhent ríkinu galtómt og húsmunalaust.
Kristján Eldjárn segir í grein sinni, að sér sé óljúft að hefja embættis-
feril sinn sem þjóðminjavörður með því að „vera bendlaður við þann
vandalisma, sem framinn hefur verið gagnvart Bessastaðakirkju“ og því
vilji hann gefa yfirlýsingu um þátt sinn og þeirra Matthíasar Þórðarsonar
að verkinu, sem sé raunar enginn. Húsameistari ríkisins hafi haft veg og
vanda af viðgerðinni en ekki þjóðminjavörður, en engu að síður hefði
það átt að vera menningarleg skylda húsameistara að ráðgast við þjóð-
minjavörð um viðgerð á svo merku húsi. Hafi hann gert það að nafninu
til, fengið Matthías Þórðarson einu sinni með sér þangað suður eftir.
68 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS