Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Page 51
50 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
í þeim mánuði lauk vetrarvertíð. Þá var tekið hlé í sex daga og einn af þeim
notaður til að mála og hreinsa skipið. Hinn 16. maí lagði Sigríður aftur af
stað á miðin og nú á vorvertíð. Í júní var hægt að veiða í 23 daga, 30 í júlí,
25 í ágúst og 13 í september. Úthaldinu lauk 26. september er kútterinn
sigldi inn á Reykjavíkurhöfn. Þegar ekki var hægt að fiska var skútan ýmist
á siglingu, látin reka eða í vari uppi við land. Stormar og vond veður voru
helstu ástæður fyrir því að ekki var hægt að veiða á hverjum degi. Skipið var
í heimahöfn einu sinni til tvisvar í mánuði nema í júlí, eða í 19 heila daga
og hluta úr 10 í viðbót. Síld í beitu var veidd í reknet nokkrum sinnum um
sumarið og haustið.11
Þrengsli og óþrifnaður
Með lögum um eftirlit með skipum og bátum, sem öðluðust gildi 1. janúar
1904, voru í fyrsta skipti sett fyrirmæli um aðbúnað skipshafna hér á landi.
Sérstakir skoðunarmenn áttu að annast eftirlitið og skyldu þeir m.a. kynna
sér vistarverur áhafnarinnar. Heimilt var að banna lögskráningu manna á
skip sem töldust vera með illa útbúnar vistarverur, of litlar, eða með lélegri
loftræstingu nema að tilkvaddur læknir teldi það óhætt.12 Í lögum um eftirlit
með skipum og bátum og öryggi þeirra nr. 29/1912 er einnig vikið að rými,
birtu, loftræstingu og hollustuháttum í vistarverum. Það átti þó aðeins við
um báta þar sem skipshöfnin bjó um borð og voru 15 brúttólestir eða stærri.13
Undir lok seglskipatímans, 1922, voru aftur sett lög um eftirlit með skipum og
bátum ásamt ítarlegri tilskipun. Þar sést að ekki voru gerðar sömu kröfur til
yngri skipa og eldri og plásslítilla, eins og átti við um skúturnar. Þannig máttu
kojur í gömlum skipum „vera eins stórar og þægilegar og ástæður leyfa, enda
skal þar farið eftir áliti skoðunarmanna“.14 Í skipum undir 25 brúttólestum
var ástand vistarvera einnig miðað við aðstæður og mat skoðunarmanna.
Út frá þessum viðmiðum er sennilegt að ekki hafi alltaf verið farið eftir
ströngustu kröfum enda voru skúturnar f luttar inn notaðar frá útlöndum. Í
tilskipuninni er kveðið á um að vistarverur skuli vera hreinar og þokkalegar
og með góðri loftræstingu. Ekki var skylda að hafa salerni í seglskipum undir
100 rúmlestum.15
11 ÞÍ. Bæjarfógetinn í Reykjavík. OA/19. Leiðarbók fyrir kútter Sigríði frá
Reykjavík árið 1914.
12 Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 124.
13 Stjórnartíðindi 1912 A, bls. 116.
14 Stjórnartíðindi 1922 A, bls. 160.
15 Sama heimild, bls. 160-165.