Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Síða 132
KÁL Í KIRKJU STAÐ. UM GARÐ Í RAUÐUSKRIÐU Í AÐALDAL 131
réttindi kirkju og sóknarprests í Múla.5 Benedikt dó fyrir aldur fram 1733
og hafði þá ekki komið því í verk að byggja kirkjuna. Því sótti Jón sonur
hans sýslumaður (d. 1776), sem einnig bjó í Rauðuskriðu, um nýtt leyfi
og fékk það með sömu skilmálum 1746.6 Jón „byggði rausnarlegan bæ í
Rauðuskriðu, og með leyfi konungs fallega smíðaða kirkju, er síra Stephán
í Laufási Einarsson vígði til guðsþjónustugjörðar eptir skipun biskups; en
að Jóni önduðum, þá ekkjan flutti sig þaðan, voru helstu húsin rifin, jörðin
seld og kirkjan einnig seld og burtflutt.“7 Stefán Einarsson hélt Laufásstað
frá 1738 til 1754 og hefur kirkja Jóns því verið vígð milli 1746 og 1754 og
tekin niður skömmu eftir 1776.
Í örnefnaskrá Rauðuskriðu, sem skrifuð er á 6. áratug 20. aldar eftir
frásögn Árna og Sigurðar Friðfinnssona í Rauðuskriðu, er getið um kirkju-
garðinn: „Gamall grafreitur var hér í túni, með torfgarði allt í kring, ekki
hreyfður ennþá. Fyrrverandi þjóðminjavörður mælti svo fyrir að grafreit-
urinn skyldi friðhelgur vera.“8
Steinninn sem Brynjúlfur skoðaði 1905, og var ástæðan fyrir heimsókn
hans til Rauðuskriðu 1905, komst á Þjóðminjasafnið 1929 og hefur
safnnúmerið 10948. Matthías Þórðarson taldi að þetta væri náttúrulegur
steinn og las þar nöfnin Magnnus Jonss og Helena Joons auk ártalsins 1555.
Hann taldi einsýnt að þetta væru þau hjón Magnús prúði og Elín Jónsdóttir
sem bjuggu í Rauðuskriðu 1551-1564. Magnús lést 1591 í Saurbæ á Rauða-
sandi og er grafinn þar. M.a. þessvegna taldi Matthías steininn ekki vera
legstein heldur hafi nöfnin sennilega verið „sett á steininn til minningar og
gamans eða fróðleiks.“9
Lýsing rústar
Garðurinn er um 180 metra norðvestur frá bæjarstæðinu í Rauðuskriðu
5 Lovsamling for Island II, bls. 58-60.
6 Lovsamling for Island II, bls. 563-64.
7 Bogi Benediktsson 1881-1932, I, bls. 124.
8 Örnefnalýsing Rauðuskriðu, bls. 4.
9 Þjóðminjasafn Íslands. Aðfangabók. Um Magnús prúða og Elínu konu hans,
sjá Jón Þorkelsson 1895, einkum bls. 14-36 og Páll Eggert Ólason 1919-26, IV,
bls. 467-90. Elín lést um það leyti sem Magnús f lutti frá Rauðuskriðu (1564)
og gæti því verið grafin þar en yfir leiði Magnúsar á Saurbæ var reistur veglegur
legsteinn, sbr. Jón Þorkelsson 1888, bls. 373-74. Það lítur út fyrir að steinninn
frá Rauðuskriðu sé liður í stormasamri ástarsögu Magnúsar og Elínar.