Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Page 152
HVALVEIÐAR ÚTLENDINGA Á 17. ÖLD 151
lögrétta áréttuðu að refsa ætti mönnum fyrir slíkt samkvæmt lögum en gera
má ráð fyrir að fleiri en þeir ónefndu menn sem dóminn hlutu hafi stundað
launverslun. Eftir ýmsu var að slægjast hjá útlendingunum. Jón lærði nefnir í
„Sannri frásögu“ að heimamenn hafi getað keypt hvalkjöt vægu verði, en einnig
„hamra, öxar, járn og striga“. Fyrir þetta greiddu menn með mjólkurmat, kjöti,
prjónlesi og jafnvel hundum (Sönn frásaga, bls. 6–7, 9). Tóbakskaup þau sem
nefnd voru á alþingi 1666 koma vel heim og saman við venjur Baska á þessu
tímabili. Upp úr aldamótunum 1600 gekk alda galdramála yfir Baskalöndin.
Einn helsti nornaveiðarinn Frakklandsmegin, Pierre de Lancre, telur það með
helstu löstum Baska hve mikið tóbak þeir brúki (M. Kurlansky 2000, bls. 101).
Skal ósagt látið hvort það tóbak var frá hvalföngurum komið sem séra Þórður
Jónsson á Óspakseyri í Bitrufirði brúkaði og varð tilefni þess að sóknarbörnin
kærðu tóbaksdrykkju hans til biskups (Már Jónsson 2005, bls. 381).
Sagnir um mannrán erlendra sjómanna á Íslandi eru þekktar frá ýmsum
tímum en að Tyrkjaráninu undanskildu eru fáar þeirra studdar öruggum
heimildum. Jón lærði nefnir að með spænsku Böskunum árið 1614 hafi verið
enskur stýrimaður sem tók Jón til fanga en Jón komst af skipinu með vitund
skipstjóranna. Sami Englendingur hafi haft hug á að taka með sér ungt fólk
„og kenna láta / katholisk fræði, / setja til sæmdar / í sínu landi“ (Jón lærði
Guðmundsson 1916, bls. 42). Jóni tókst að afstýra þessu og voru skipsmönnum
í staðinn seldir 30 sauðir svo ekki er útilokað að með tiltækinu hafi skipverjar
verið að neyða heimamenn til að selja sér kost til siglingarinnar heimleiðis.
Eitthvað hefur þó verið um að Íslendingar hafi siglt af landi brott með Böskum
hvort sem þeim hefur verið rænt eða þeir farið sjálfviljugir. Til er seðill frá
sendimanni Danakonungs þar sem segir að viðkomandi hafi leyst þrjár íslenskar
konur og tvo karlmenn frá Böskum á Spáni. Nöfnin eru afbökuð og engar
íslenskar heimildir segja frá þessu fólki (Helgi Guðmundsson 1979, bls. 80).
Samskipti hvalfangara við heimamenn þessa áratugi hafa varla verið öll
á einn veg fremur en í upphafi aldarinnar og útlendingunum var kennt um
sumt með rökum sem þykja skondin í dag en falla vel að hugsunarhætti 17.
aldar. Frá því er sagt í Vallholtsannál að árið 1662 hafi komið undarleg blinda
á fé á Skagaströnd. Grunaði heimamenn að „frönskum galdrastrákum“
væri um að kenna því „sumarið fyrir höfðu Strandarmenn djarfir verið að
ná sér nokkru af hvalreitum þeirra“ (Annálar I, bls. 359). Hvalamönnum
var einnig kennt um aflabrest árið 1688. Þá óskaði amtmaðurinn Kristján
Möller eftir upplýsingum um hvort hægt væri að auka fiskveiðar með
hag konungs í huga. Í svari þingmanna er kvartað undan hallæri og fátækt
og þar með að fiskur taki ekki beitu því hann sé ofalinn á úrgangi frá
hvalföngurum (Alþingisbækur VIII, bls. 205–206).