Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Page 161
160 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Neðansjávarrannsókn
Við uppgröftinn á Strákatanga fundust fá hvalbein sem er í samræmi við
uppgreftri á hvalveiðistöðum erlendis (J. A. Tuck, R. Grenier 1989; L.
Hacquebord, W. H. Vroom 1988; L. Hacquebord o.fl. 1998). Flest hvalbein
finnast á hafsbotni við hvalveiðistöðvar enda var í flestum tilfellum gert að
hvalnum í fjörunni eða við hlið stærri hvalveiðiskipanna. Af þessari ástæðu
var ákveðið að kanna hafsbotninn í Hveravík og athuga hvort ekki fyndust
hvalbein eða annað sem tengdist hvalveiðum á 17. öld.
Eitt sýnatökusvæði var sett upp og náði það yfir mestalla víkina austan
megin við hvalveiðistöðina. Svæðið sem var kannað var um 300 x 700 metrar
að stærð og var notaður „side-scan“ sónar og síðan kafað niður á valda staði.
„Side-scan“ sónarinn er dreginn á eftir bát og sendir frá sér hljóðbylgjur sem
endurvarpast af hafsbotninum og þeim hlutum sem á honum liggja. Þessi
aðferð gefur skýra mynd af hafsbotninum í rauntíma og í sumum tilfellum er
hægt að túlka upplýsingarnar á vettvangi (A. Bowens 2009). Sónarkönnunin
í Hveravík sýndi að víkin er grunn vestan megin en dýpkar smám saman í
austur. Meðfram ströndinni austan megin náði dýptin 30 metrum. Svæðið
meðfram austurströndinni er því ákjósanlegt viðlegupláss fyrir stærri skip og
því er líklegt að hvalveiðimenn á 17. öld hafi legið þar við akkeri meðan á
hvalavertíðinni stóð. Aðeins á einum stað sýndi sónarinn merki um manngerðan
hlut á hafsbotninum en að öðru leyti var hafsbotninn einsleitur, leirkenndur,
sendinn og laus við gróður og grjót.
Í kjölfarið var kafað á nokkrum stöðum og þá aðallega á svæðinu vestan megin
í víkinni. Eins og sónarkönnunin hafði sýnt var lítill gróður á hafsbotninum
og botninn þakinn þykku leirkenndu seti. Nánari könnun á setinu sýndi að
það var laust í sér og hægt að stinga hendi í það upp að olnboga án mikillar
fyrirstöðu. Við línuleit, þ.e. þegar kafari fylgir beinni línu í fyrirfram ákveðna
átt og snýr svo við í gagnstæða átt, fundust ekki neinir manngerðir hlutir en á
einum stað stóð hvalbein upp úr setinu. Er því líklegt að fleiri hvalbein séu á
þessu svæði en að þau séu hulin þykku seti og erfitt verði að nálgast þau með
fornleifafræðilegum aðferðum. Ástæða þess að svo mikið set er í Hveravíkinni
er fyrst og fremst framburður Hverár sem rennur í víkina en að auki er víkin
skjólgóð, straumlítil og ekki mikil hreyfing á hafsbotninum.
Fundir
Heildarfjöldi funda yfir öll uppgraftartímabilin er 736. Af þessum fundum
voru 37% járngripir, 52,5% leirmunir, 0,35% gripir úr málmblöndum, 0,95%