Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Page 189
188 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
landnám á síðari hluta 9. aldar og rekja megi hann til Noregs (þar nefnast
sel sæter eða seter). Þar í landi er hægt að rekja þessa búskaparhætti aftur á
járnöld (Magnus 1986, Skrede 2005, Øye 2003). Ekki er heldur hægt að
útiloka áhrif frá eyjunum norðan Skotlands og frá Írlandi, en þar tíðkuðust
svipaðir búhættir (airge). Pálstóftir eru fyrstu seljarústirnar sem grafnar hafa
verið upp í heild á Íslandi og hafa verið tímasettar með vissu. Þær eru því
mikilvægar ef rannsaka á það hlutverk sem seljabúskapur gegndi á fyrstu
öldum byggðarinnar. Hér verður sagt frá minjunum og fjallað nokkuð um
þátt seljabúskapar í norrænum búháttum.
Umhverfi Pálstófta
Pálstóftir eru um 580 m yfir sjávarmáli, austan við Jökulsá á Brú. Landinu hallar
lítil lega frá suðaustri í norðvestur. Á okkar dögum er það vaxið lágum heiða-
gróðri. Ekki var komið niður á klöpp við uppgröftinn, en neðar í brekkunni
komu fram grágrýtisklappir. Náttúrlegur jarðvegur á staðnum er ljósgrár og
gulur fok jarð vegur, silt og sandur og í honum mörg gjóskulög bæði forsöguleg
og sögu leg. Um 150 m vestsuðvestur af uppgraftarstað var tekið sýni í stokk til
frjó korna greiningar og efnagreiningar á jarðvegi til samanburðar.
Frjókornagreining sýndi að hálendiskjarr hafði verið upprætt, líklega af
beit, og hélt áfram að minnka framan af notkunartímanum, sem stóð frá
því um 940-1025. Á síðari hluta hans og eftir að staðurinn var yfirgefinn
um miðja 11. öld, náði víðikjarr sér aftur á strik og gróður varð fjölbreyttari
vegna þess að beit minnkaði. Örsmáar agnir af viðarkoli í jarðvegi vitna um
að einhver viðvist manna hafi enn verið á staðnum. Á 14. öld varð gróðurfar
einhæfara og kjarrgróður meiri (Verrill 2007). Ritheimildir sem varða
þennan stað eru yfirleitt frá töluvert síðari tíma. Landið þar sem Pálstóftir eru
var eign kirkjujarðarinnar Valþjófsstaðar í Fljótsdal, um 40 km austar. Ekki er
ljóst hvernig þetta eignarhald kom til en það má rekja aftur til síðari hluta 14.
aldar (Elín Ósk Hreiðarsdóttir 2005:10, Sveinbjörn Rafnsson 1990:15–18).
Valþjófsstaður er líklega landnámsjörð (ef til vill byggð af annarri kynslóð
landnámsmanna) en kemur fyrst við sögu sem meiri háttar valdamiðstöð
seint á 12. öld (Elín Ósk Hreiðarsdóttir 2005:11).
Ekki er hægt að vita hvort landið umhverfis Pálstóftir var þá í eigu Valþjófs-
staðar. Það er fullt eins líklegt að selið hafi tilheyrt býli í sama dal eða öðrum
nærliggjandi (til dæmis Brú).
Allir bæir í nágrenninu byggðust tiltölulega seint út frá Valþjófsstað. Þetta
gerðist yfirleitt á 18. öld, en vísbendingar eru um eldri mannvist á mörgum af
þessum stöðum (Sveinbjörn Rafnsson 1990).