Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Qupperneq 201
200 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
fornleifar á hálendi þar, þ.e. þær sem voru yfir 200 m yfir sjó. Nokkuð hefur
verið bætt úr þessu síðar (Guldager o.fl. 2002). Þeir settu fram hugmynd um
þrískiptingu sem byggðist á verki Reintons, sem aðferð til að bera kennsl á
hugsanleg sel og bentu á átta staði í Qordlortoqdal – sex þeirra töldu þeir
einkum til mjólkurframleiðslu („dairy shielings“) og tvö sel fyrir margvíslega
notkun („full shielings“), auk þess sem þar eru tvö fjallabýli. Enginn af þessum
stöðum er hærra en 400 m yfir sjó (Albrethsen og Keller 1986:95-101) og
á flestum eru tvær eða fleiri byggingar, misstórar, sumar skiptast í fleiri hólf.
Aðalmunurinn á þeim seljum sem þeir töldu hafa verið til margskonar nota
og þeim sem aðeins voru fyrir mjólkurframleiðslu er að á þeim fyrrnefndu
voru íveruhús og þau voru yfirleitt lengra frá bæ eða á stöðum sem hentuðu
illa fyrir venjulegan búskap. Umfjöllun þeirra félaga byggist á skráningu
sýnilegra minja og vistfræðilíkönum. Þeir voru einkum að velta fyrir sér
áhrifum seljabúskapar á umhverfið og einnig að sýna fram á að sel hafi verið
í norrænum byggðum á Grænlandi. Sverri Dahl fjallaði um seljabúskap í
Færeyjum á sjötta áratug 20. aldar og notaðist við örnefni til að bera kennsl
á sel. Þónokkrar selrústir fundust og var eitt sel síðar grafið upp (Dahl 1970,
1971). Á níunda áratug tuttugustu aldar hélt Ditlev Mahler áfram rannsóknum
á þessu efni og studdist við skráningu á minjastöðum. Hann komst að þeirri
niðurstöðu að flest sel í Færeyjum eru innan við 4-5 km frá bæ, og er
meðaltalið 3 km og meðalhæð yfir sjó 76 m. Einnig lagði Mahler til að skipta
mætti seljum í tvo flokka og studdist við lögun og stærð bygginga, einföld
sel og flókin. Einfalda gerðin var þá með litlum húsum, um 15 m² hvert,
en í flókna hópnum voru stærri byggingar, um 27 m² hver um sig og skipt
í fleiri rými eða hólf (Mahler 1993:495-501). Ekki reyndi Mahler að skýra
þessa skiptingu, en bendir á að erfitt geti verið að þekkja sundur flókin sel og
venjuleg býli. Hann gróf svo á níunda áratugnum upp eitt af þessum flóknari
seljum, sem var óvenjuhátt yfir sjó (eftir því sem gerist í Færeyjum), eða 130
m yfir sjó. Þar voru skráð alls 18 mannvirki, og 17 þeirra voru tímasett til
víkingaaldar (Mahler 1991, 1993, 2007). Staðurinn er kallaður Argisbrekka, og
er 3 km frá heimabænum. Minjarnar skiputust á tvö svæði og voru á hvorum
stað tvær til þrjár húsaþyrpingar, bæði íveruhús og útihús. Mjög lítið fannst af
gripum, sem er mjög ólíkt því sem gerist um bæjarstæði, en það sem fannst
var yfirleitt af svipuðu tagi og það sem finnst á venjulegum bólstöðum. Gerð
húsa og stærð var hins vegar frábrugðin því sem gerist á venjulegum býlum og
líktist öðrum seljum frá víkingaöld, gjarnan 24-28 m² og með inngang á gafli.
Fyrri rannsóknir á íslenskum seljum hafa einkum falist í skráningu
fornminja í sambandi við örnefni. Guðrún Sveinbjarnardóttir skoðaði þrjú
svæði og var athugun hennar hluti af stærra verkefni, rannsókn á eyðingu