Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Page 224
NUUSSUAQ – NORRÆN VEIÐISTÖÐ Á VESTUR-GRÆNLANDI? 223
Það merkilegasta sem við sáum var torskilið mannvirki á ströndinni milli
odd anna tveggja. Í flæðarmálinu, 30 metrum sunnan við „Bjarnargildruna“
er grjótlögn, 11x15 metrar og gerð úr flötum steinum. Mannvirkið sker sig
greinilega úr sandfjörunni umhverfis. Steinarnir sem mannvirkið er gert úr
liggja hlið við hlið og snúa sléttri hlið upp og út. Steinarnir nær flóanum
hallast út á við og hallar því öllu mannvirkinu í átt að sjávarbotninum. Eins
er það undir klettunum að norðan. Næst ströndinni er mannvirkið lárétt og
steinarnir snúa sléttri hlið upp. Á ströndinni sjálfri breytist þetta í samansafn
af steinum sem ekki virðast lagðir með neitt skipulag í huga. Fyrir framan
þetta mannvirki er sjórinn á milli eins til fjögurra metra djúpur, þegar fjara er.
Hvað í ósköpunum gat þetta verið? Við ræddum það með ákefð á meðan
við mældum upp og rannsökuðum umfang grjóthleðslunnar, breidd og hæð.
Sjálfur var ég líklega síst trúaður á að þetta gæti verið merkilegt mannvirki. Í
fyrsta lagi var ótrúlegt að þessu hafði ekki verið lýst áður. Fornleifafræðingar
höfðu komið margsinnis áður á þessar slóðir. Af hverju hafði enginn þeirra
veitt þessum steinum á ströndinni athygli? Í öðru lagi var ég í vafa um að
þetta mannvirki gæti yfirleitt haft nokkurt notagildi. Því skyldi einhver hafa
byggt steinbryggju á einhverri allra einangruðustu ströndinni við Norður-
Atlantshaf? Mig grunaði eindregið að þetta væri náttúrumyndun fremur en
mannvistarminjar.
Við dvöldum þarna yst á Nuussuaq í þrjá daga. Á hverjum degi rerum við
inn á gúmmíbátnum og mældum upp og skoðuðum tóftirnar á oddanum
og steinbryggjuna á ströndinni og rannsökuðum svæðið í kring. Ég varð
smám saman sannfærðari um að grjótinu á ströndinni hefði verið hagrætt
af mannahöndum, a.m.k. að einhverju leyti. En hverjir höfðu gert það og til
hvers? Nærtækast væri að hugsa sér að það hafi verið Thulefólk eða inúítar frá
síðari tímum sem hefðu hreinsað grjót af ströndinni svo að hægt væri að draga
báta eða kajaka á land. En Solberg trúði ekki á þessa skýringu. Þegar bátar fyrri
alda, umiaq og kayak, áttu í hlut var óhentugt að fjarlægja grjót á þennan hátt, því
að auðveldast var að lyfta þessum bátum upp úr vatninu af sjávarklöppunum,
en nýrri tré- eða plastbáta má auðveldlega draga upp á ströndina ef þeir eru þá
ekki látnir liggja fyrir akkeri lengra úti á flóanum.
Var mannvirkið gert af norrænum veiðimönnum til að auðvelda þeim
að hlaða bátana með fengnum, sem geymdur hafði verið í geymsluhúsinu
30 metrum fjær? Þetta er hugsanleg skýring og sambærileg mannvirki í
Skandinavíu styðja slíka túlkun. Á verslunarstaðnum Kaupangi við Oslófjörð
hafa verið rannsökuð tvö mannvirki úr steini sem liggja í flæðarmálinu.
Fornleifafræðingurinn sem rannsakaði þau skrifar að annað kunni að hafa
verið bryggja þar sem varningi, sem fluttur var á verslunarstaðinn og frá