Skírnir - 01.01.1966, Blaðsíða 16
14
Einar Öl. Sveinsson
Stirnir
sjálfstæðis, eflingu verzlunar Islendinga og síðar útgerðar,
vexti safna, Forngripasafns, Landsbókasafns og Þióðminja-
safns, eflingu prentverka og blaða o. s. frv. Svo kemur heima-
stjórn, stofnun Háskóla og sambandslögin. Einmitt á þessum
árum var því eðlilegt, að sú skoðun breiddist út, að Hafnar-
deildin skyldi flutt heim. Eftir langa baráttu gerðist það loks
á árunum 1911—-12, og á aðalfundi 17. júní 1912 var málið
til lykta leitt. Þessi breyting var nákvæm spegilmynd þess,
sem þá hafði gerzt eða var að gerast í sjálfstæðismálum og
menningu þjóðarinnar.
Nú skal næst hverfa að því, sem félagið hafðist að í út-
gáfumálum hina síðustu aldarhelft.
Islenzkt fornbréfasafn og Safn til sögu Islands hafa haldið
áfram. Um íslenzkt fornbréfasafn sá Jón Þorkelsson, meðan
hans naut við, og rak hann verkið áfram af miklum dugnaði.
Af honum tók við Páll Eggert Ólason, þá Björn Þorsteinsson,
sem gróf upp grúa skjala í enskum og þýzkum söfnum. Að
efni Safns til sögu íslands verður vikið lítið eitt, þegar fjall-
að verður um aðrar bækur. Islendingasögu Boga Melsteðs
lauk 1930, en Lýsingu íslands 1923. Registur við Sýslumanna-
ævir kom út á árunum 1930—32. Árið 1922 hóf félagið út-
gáfu nýs stórvirkis, Annála 1400—1800, sem Hannes Þor-
steinsson sá um, en eftir hans dag Jón Jóhannesson og nú
Þórhallur Vilmundarson. Annað stórvirki þess voru Islenzkar
æviskrár, 5 bindi, sem Páll E. Ólason samdi, en síra Jón
Guðnason ritaði viðauka við. Efnt var til útgáfu Islenzkra
miðaldakvæða, en Jón Þorkelsson féll frá því verki, og þótti
rétt að halda því ekki áfram. Annars hafa komið margar
hóflega stórar bækur, svo að þær voru mátulegar með Skírni
og öðru því, sem kom í mörgum heftum. Á þessum árum
komu svo mörg rit um íslenzkar bókmenntir, að varla munu
á jöfnum tíma fleiri hafa komið áður. Þar má telja útgáfu
Bjamar M. Ólsens af Sólarljóðum; Um Islendingasögu Sturlu
Þórðarsonar eftir Pétur Sigurðsson; Um Islendingasögur,
kaflar úr háskólafyrirlestrum eftir Bjöm M. Ólsen, rit sem
oftar er vitnað til í erlendum bókum en flesta mun gruna;
Um íslenzkar þjóðsögur eftir Einar Ól. Sveinsson, og var