Skírnir - 01.01.1966, Blaðsíða 78
76
Björn K. Þórólfsson
Skírnir
Sjöunda og síðasta dagskrármál að þessu sinni var tak-
mörkun á vínsölu. 1 því máli var eftir litlar umræður nálega
í einu hljóði samþykkt svo felld ályktun:
„Fundurinn skorar á Alþingi að gera sér allt far um að
afstýra ofnautn áfengra drykkja í landinu.“
Er þessi mál voru afgreidd, var fundi frestað til kvölds.
Þá var málið um endurskoðun stjórnarskrárinnar tekið til
ályktunarumræðu. Nefndin í málinu lagði fram svo hljóðandi
tillögu í fjórum liðum til fundarályktunar:
„Fundurinn skorar á Alþingi:
a, að láta endurskoðun stjórnarskrárinnar ganga fyrir öll-
um öðrum málum í sumar, næst fjárlögunum, og leyfir sér
að fara fram á, að það leggi til grundvallar frumvarp það, er
Alþingi samþykkti og sendi konungi til staðfestingar 1873,
meðal annars sérstaklega að því er snertir fyrirmælin um
jarl á Islandi, er skipi stjórnarherra með ábyrgð fyrir Al-
þingi, þó svo
b, að Alþingi komi saman á hverju ári.
c, að kosningarréttur til Alþingis sé ekki bundinn við
neitt gjald til almennra þarfa, og
d, að sambandinu milli ríkis og kirkju skuli skipað með
lögum.
Suðri segir, að langar og allharðar umræður hafi orðið um
tillögu nefndarinnar. Þó var stafliður a samþykktur með flest-
öllum atkvæðum gegn einu. öðru máli gegndi um staflið b,
sem samþykktur var með 20 atkvæðum gegn 11, og segir
Suðri, að nafnakall væri haft, en ekki er þess getið í fundar-
skýrslunni. Þá var stafliður c samþykktur með meirihluta at-
kvæða og stafliður d með öllum þorra atkvæða.
Þá voru bornar fram þrjár viðaukatillögur, og munu það
vera hinar sömu sem Sigurður í Yztafelli nefnir breytingar-
tillögur, og segir, að hann sjálfur og fleiri hafi komið með.
Að vísu segir í fundarskýrslunni, að „einn fundarmaður“ hafi
gert „viðauka-uppástungu“ um frestandi synjunarvald, en vera
má, að fleiri hafi staðið að tillögunni, þó að flutningsmaður
væri formlega einn. Þessar viðaukatillögur eru í fundarskýrsl-
unni skráðar sem stafliðir e, f, g og hljóðuðu þær þannig: