Skírnir - 01.01.1966, Blaðsíða 291
Skírnir
Ritfregnir
287
þessi verk, verðum við fyrst að ákvarða okkur einhvern mælikvarða, sem
skírskotar til fagurfræðilegs mats almennt að viðbættum eigin smekk, án
þess um beinan samanburð geti verið að ræða.
Ég vil þó taka fram, að hér hef ég í huga meiri hluta kvæðanna i
Fagur er dalur, en ekki alla bókina undantekningarlaust.
Matthías Johannessen hefur áður sent frá sér nokkrar ljóðabækur. Þar
hefur kennt margra grasa. Skáldið hefur verið að þreifa fyrir sér, kanna
hinn ljóðræna tónstiga. Matthias hefur ekki slegið allar nótur jafnfimlega.
En þá ber þess um leið að geta, að hann hefur verið mjög óragur að slá
nótur —- gera tilraunir. Hann hefur þanið skáldfákinn fram og aftur og
prófað allan hans gang.
Og i sumu tilliti hefur hann farið andstreymt: Mörg ef ekki flest yngri
skáld hafa ástundað innhverfa tjáning. Matthías hefur þvert á móti gerzt
úthverfari í tjáning sinni. Hann er ekki maður hinnar hálfkveðnu visu
og véfréttarlegu og langsóttu vísbendingar. Hann er skáld einfaldleika,
skáld myndrænna, en ljósra líkinga.
Og líkingasmíð er aðal hans sem skálds. Stundum gat manni virzt, ef
eldri bækurnar eru í huga hafðar, sem líkingar hans orkuðu tvímælis.
Voru ekki sumar þeirra fullfjarstæðar? Var ekki hægt að slá ögn af, taka
meira tillit til þess, hvað sæmilega frjálslyndum lesanda kynni að þykja
hóflegt? Auðvitað var það hægt. En Matthías hefur trúað, að tilraunir
hans bæru árangur. Og sem við lesum Ijóðin í Fagur er dalur, hljótum
við að viðurkenna, að honum hafi orðið að trú sinni. Við sjáum nú, að
Matthías hefur kosið sér krókótta leið og torfærusama að erfiðu marki
fremur en beina leið og greiða að auðveldu marki. Og marki sinu hefur
hann hér með náð að svo miklu leyti sem skáld kemst nokkru sinni að
nokkru marki.
Ljóðin í Fagur er dalur eru verk fullmótaðs höfundar, sem gerir sér
ljóst, hvar hann er á vegi staddur. Skáldið gerir ekki lengur tilraunir,
sem orka tvímælis, heldur notfærir sér reynslu af fyrri tilraunum sinum.
Ég held, að ekki sé of sterkt að orði kveðið, að margt sé með ágætum ort
í þessari bók. Eftir að hafa slegið margar nótur, sumar hljómfagrar, aðrar
hálfandkannalegar, hefur Matthias hitt á þann hreina tón, sem er tónn
skáldskapar. Og meira verður ekki af neinum rithöfundi krafizt.
Matthias Johannessen hefur verið nýjungamaður í ljóðagerð. En hann
hefur ekki vísað á bug allri hefð. Hann hefur náð góðum tökum á eldra
ljóðformi og beitir því, sem hann vill það við hafa. Fyrsta kvæðið í Fagur
er dalur, Stúlka með brún augu, er þannig háttbundið. Sama máli gegn-
ir um einn heilan kafla bókarinnar, Hér slær þitt hjarta, land.
Það er í rauninni ákaflega merkilegt að bera saman ljóð Matthíasar,
þau sem óbundin eru af eldra formi, og hin, sem ort eru eftir gömlum
bragfræðireglum. Merkilegt, segi ég, því ég hygg, að niðurstaðan yrði
ekki ósvipuð, ef þannig væru borin saman ljóð annarra skálda af yngri
kynslóðinni.