Skírnir - 01.09.1988, Síða 212
418
GUÐRÚN NORDAL
SKÍRNIR
komin og þau kort er sýna uppgang höfðingja, eins og Sturlu, Snorra, svo
og Sturlunganna allra; ferðir og dvalarstaðir Guðmundar Arasonar og
ásælni Hákonar konungs við Islendinga, eru þægileg fyrir lesendur, svo að-
eins fáein dæmi séu nefnd. Það er lítið við þessi kort að athuga, en fyrir get-
ur komið að fyrirsagnir kortanna séu óskýrar, eins og t. d. „Flatatungu-
fundur“ (númer 45). Fyrirsögnin vísar til sáttarfundar milli Sighvats
Sturlusonar og Kolbeins unga, eftir að Kolbeinn hafði skipulagt árás á
hendur Sighvati árið 1234.1 tengslum við skýringarkortið er ekki einungis
vísað til þeirra atburða sem tengdust fundinum, heldur atburða þar á eftir,
sem virðast vera fundinum óviðkomandi (bls. 1.372, 383).
Á eftir textaskýringum fylgja listar yfir lögsögumenn og biskupa á ís-
landi; helstu atburði á Islandi á tólftu og þrettándu öld; yfir páfa og kirkju-
lega höfðingja, svo og konunga á miðöldum. Síðan er tafla yfir evrópskar
og íslenskar miðaldabókmenntir, sem raðað er eftir tímaröð. Þar er Sturl-
unga saga kennd við Þórð Narfason, sem mér virðist nokkur ofrausn. Þá
fylgir annar listi þar sem íslenskum ritum á miðöldum er raðað í flokka. Þar
er Sturla Þórðarson nefndur líklegur höfundur Grettis sögu, þó látið sé að
því kveða í inngangi að það sé fráleit tilgáta (xli). Einnig er vafasamt hvort
aðeins beri að tilgreina Þorgils sögu skarða og íslendinga sögu sem glötuð
verk, en fella allar aðrar sögur, sem safnandinn notaði í Sturlungu, undir
hatt samsteypunnar Sturlunga sögu.
Orðasafnið í lok þriðja bindis á ekki einungis við þau orð sem koma fyrir
í Sturlungu, heldur í öðrum fornritum. Það er greinargott. Aðalgalli þess er
að tilvísanir vantar í þær blaðsíður í textanum, þar sem orðin koma fyrir.
Það er hugsanlegt að einfaldara hefði verið að setja orðaskýringar neðan-
máls, svo að lesandinn þurfi ekki að fletta upp í orðasafninu í hvert sinn sem
hann rekst á torskilið orð. Það er einnig galli að orð skuli ekki skýrð í því
samhengi sem þau koma fyrir hverju sinni, eins og leitast var við í útgáfunni
frá 1946, því aðeins þannig koma orðaskýringar í fornsögum að fullu gagni.
Einnig hefði verið áhugavert að tilgreina þegar um lagalega skilgreiningu er
að ræða, því að merking þeirra getur verið margþætt.
Skýringarbindið endar á nafnalistum sem skiptast í fernt. Listi yfir
mannanöfn í Sturlungu, Hrafns sögu hinni sérstöku og Árna sögu; listi yfir
staðanöfn; listi yfir mannanöfn í „Ættum og átökum" og á „Kortum" og
listi yfir flest viðurnefni. Viðurnefnaskráin er sérstaklega skemmtilegur
viðauki, því mörg viðurnefnin í Sturlungu eru mjög spaugileg.
IV
Hver kynslóð hefur tilhneigingu til að gefa út fornsögurnar í samræmi við
breyttan smekk og nýja strauma. Er því óneitanlega ferskur blær yfir þess-
ari nýju útgáfu. Útgáfa Svarts á hvítu á Sturlunga sögu er mjög myndarlega
úr garði gerð. Bindin þrjú eru í smekklegu bandi, og kassinn sem hýsir þau
er skreyttur fallegum myndum frá þrettándu öld. Skýringarbindið sýnir