Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2005, Side 118
Elsti máldagi Álftamýrarkirkju við Arnarfjörð er í íslenzku fornbréfa-
safiii talinn vera frá sumrinu 1211,41 í máldaganum er m.a. þetta ákvæði:
Prestur skal minnast í hverri messu er hann syngur að Maríukirkju þeirra
manna allra er sín auðæfi hafa lagt til þeirrar kirkju, nefna til einkum Stein-
grím, Þuríði, Kár, Yngvildi, Högna prest og Cecilíu og renna hug sínum of
alla þá menn er sína ölmusu hafa þangað lagt.42
Slíkt ákvæði í máldögum var ekki fátítt. Hitt var aftur nýmæli sem átti
sér fáar hliðstæður að í einum og sama máldaga er ekki einn heldur fleiri
rausnarmenn nefndir sem beðið skyldi fyrir í þakkar skyni. Orri Vésteins-
son telur þetta geta bent til þess að hópur manna hafi staðið að stofnun kirkj-
unnar en líka kemur til greina að hér séu nefndir flestir þeirra sem lagt höfðu
kirkjunni til stuðning, bæði stofnfé og aðra fjármuni.
í máldaga kirkjunnar að Stað í Hrútafirði í máldagasafni Auðunar
biskups rauða Þorbergssonar á Hólum í Hjaltadal segir frá gjafmildri hús-
freyju á staðnum:
Þórunn húsfreyja Eyjúlfsdóttir gaf heilagri Maríu guðsmóður landið hálft að
Stað í Hrútafirði, skiljandi það með gjöfmni að sá sem að Stað byggi, skyldi
fæða árliga á páskadag, á jóladag, allra heilagra messu og iiij [fjórar] Maríu-
messur þrjá fátæka menn, hvorn þessara ævinliga. Syngjast skyldi og sálu-
messur vij [sjö] fyrir sál hennar árliga hálfan átta tug ára [75 ár] frá andláti
hennar. Er ekki skylda til standa lengur sálumessum að halda.43
Það var gott að eiga liðsinni helgra manna í þessu lífi eins og fyrr er getið
þegar óboðna gesti bar að garði í Stafholti og bóndinn þar hótaði þeim með
reiði staðareigandans, Nikulásar biskups hins helga. Þó var enn betra að
eiga góða að þegar þessu lífi lauk og löng og stundum erftð ferð um hreins-
unareld til himna tók við.44 Um það vitna skilmálar Þórunnar húsfreyju og
fleiri máldagar fyrr og síðar. Á Pétursmessu og Páls (29. júní) 1497 var und-
irritaður í Skálholti samningur þess efnis að Halldór Brynjólfsson, lögréttu-
maður og bóndi að Tungufelli í Hrunamannahreppi, gæfi nýstofnuðu
klaustri að Skriðu í Fljótsdal „hundrað hundraða".45 Upphæðin skiptist
41 Orri Vésteinsson hefur fært rök fyrir því að máldaginn geti verið enn eldri, frá fyrri hluta tímabilsins
1100-1250 (Tlie Christianization oflceland, s. 103).
42 íslenzkl fornbréfasafn 1, s. 371-372.
43 íslenzkt fornbréfasafn 2, s. 485.
44 Einn þáttur í því að búa dauðvona mann undir brottförina var að husla hann, þ.e. gefa honum heilagt alt-
arissakramenti. Það var „leiðarnesti" hans eða viaticum (Gunnar F. Guðmundsson: íslenskt samfélag og
Rómakirkja. (Kristni á íslandi II. bindi. Ritstj. Hjalti Hugason) Reykjavík 2000, s. 139, 275).
45 Þ.e. 120 stór hundruð. Upphæðin jafngilti um 120 kúgildum eða sex meðalstórum jörðum.
116