Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2005, Page 119
þannig að 40 hundruð skyldu vera í jörðum, 40 hundruð í „öllum fullgildis
peningum“ og 10 hundruð í bókum og messuklæðum. En „æ sér gjöf til
gjalda“:
Hér á móti játti fyrrgreindur príor Narfi [Jónsson á Skriðuklaustri] fyrr-
sögðum Halldóri Brynjólfssyni að messa skyldi ævinlega segjast honum til
sáluhjálpar, föður hans og móður og bróður og öllum kristnum mönnum, lif-
öndum og dauðum, á fyrrskrifuðu klaustri.46
Þessi dæmi verða látin nægja til að sýna að á miðöldum var til fólk sem
gaf kirkjum og klaustrum til Guðs þakka og helgra manna og vænti ekki
annars ávinnings en fyrirbæna þeirra sem gjafanna nutu.
Margir eiga nú á tímum erfitt með að setja sig í spor manna sem fjárfesta
í voninni um eilíft líf á himnum fremur en í voninni um auðfengna hagsæld
í heimi viðskipta. Okkur er tamara að líta svo á að góð afkoma í þessu lífi,
völd og fjárhagslegt öryggi ráði ekki síður athöfnum manna á öllum tímum
en draumur um betra líf í öðrum heimi. Þetta eru réttmæt sjónarmið sem
vert er að gefa gætur að.
I hinu merka riti íslenzk menning komst Sigurður Nordal svo að orði að
„eigendur kirkna“ hefðu snemma komist upp á að eigna þeim talsvert af
lausafé sínu og stundum jarðir sínar. Með því móti hefðu þeir komist léttar
en aðrir bændur frá tíundargjaldi (enda kirkjueignir skattfrjálsar) en haft
óskert umráð þessara eigna eftir sem áður.47 Björn Þorsteinsson var sömu
skoðunar um fjárhagslegt hagræði þess fyrir bændur að gefa fé til kirkna:
Skýringin á örlæti kirkjugoðanna við kirkjuna er nærtæk og ljós. Þeir hirtu
helming tíundar, prests- og kirkjutíund, úr kirkjusókninni eða sóknunum ef
þeir áttu margar kirkjur og fjölda leiguliða; sumir hirtu jafnvel hluta af bisk-
upstíund, en voru sjálfir tíundarfrjálsir af því að þeir áttu ekki eignirnar,
heldur varðveittu þær fyrir kirkjuna, en kirkjueignir voru ekki tíundarskyldar
að lögum.48
Aðrir hafa síðar bent á að tíund var ekki hærri skattur en svo að kirkju-
bændur höfðu óverulegan hag af slíkum eignatilfærslum.49
í fyrmefndu riti sínu vakti Sigurður Nordal athygli á öðrum og harla
mikilvægum ávinningi við það að gefa jarðir, einkum heimaland, til kirkna:
46 íslenzkt fombréfasafn. 7. b. Reykjavík 1903, s. 356.
47 Sigurður Nordal: íslenzk menning. 1. b. Reykjavík 1942, s. 293-294.
48 Bjöm Þorsteinsson: íslensk miðaldasaga. 2. útg., endurskoðuð. Reykjavík 1980, s. 95.
49 Sbr. Gísli Gunnarsson og Jóhannes Hraunfjörð Karlsson: „Var tíundin „óbeinn tekjuskattur"?" Saga.
Tímarit Sögufélags 1998, s. 233-238. Gunnar F. Guðmundsson: „Guði til þægðar eða höfðingjum í hag?
Níu aldir frá lögtöku tíundar á Islandi." Ný saga. Tímarit Sögufélags 1997, s. 57-64.