Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2011, Qupperneq 84
meðal Islendinga, heldur líka í guðfræðikennslu og kirkjustjórn.24 Deilan
milli frjálslyndu guðfræðinnar og gamalguðfræðinnar, sem átti sína fulltrúa
meðal presta og í leikmannahreyfingunni,25 kristallast í umræðunni um
túlkun ritningarinnar og um bókstaflegan innblástur hennar.26
2.3 Gömul og ný guðfrœði
í röksemdum sínum gripu fulltrúar frjálslyndu- og gamalguðfræðinnar
til ritningarskilnings Lúthers. Deilur voru vissulega harðar, en ekki kom
til klofnings innan kirkjunnar, enda bar kirkjustjórnin gæfu til að draga
úr öfgum á báða bóga. Málum var ekki þannig háttað meðal íslendinga
í Vesturheimi. Fylkingar voru þar mun róttækari í allri framsetningu og
afleiðingarnar eftir því. Kom til kirkjuklofnings innan Kirkjufélagsins 1909
og deilur urðu um eignir safnaðanna. Gamaltrúaðir leituðu í röksemdum
sínum á náðir guðfræði norsku sýnódunnar í Norður-Ameríku. Þeir tóku
upp kalvínsk-ættaðar kenningar um „plenary“ eða bókstaflegan innblástur
ritningarinnar. Þeir sem aðhylltust aftur á móti frjálslynda guðfræði vildu
stíga skrefið til fulls og segja skilið við játningar kirkjunnar og gerðust sumir
hverjir únítarar.27 Deilurnar enduðu fyrir hæstarétti Norður-Dakóta sem
kvað upp dóm 1915 frjálslyndum í vil.28
Helsti fulltrúi frjálslyndu guðfræðinnar vestanhafs var Friðrik J.
Bergmann, en hann átti ætíð í nánum samskiptum við áhrifamenn meðal
guðfræðinga og í kirkjustjórninni á íslandi. Hann naut mikillar virðingar
og bar af sem guðfræðingur. Bóksafn hans var fært Háskóla íslands að gjöf
eftir fráfall hans og þar er m.a. að finna Erlangen-útgáfu rita Lúthers. Jón
Helgason tileinkaði Friðriki bók sína Grundvöllurinn er Kristur 1915, en í
henni gerir Jón grein fyrir frjálslyndu guðfræðinni.29
Friðrik J. Bergmann gerir ítarlega grein fyrir guðfræðilegum forsendum
þessarar deilu 1916 í bók sinni Trú ogþekking, sem Jón Helgason las yfir.30
24 Pétur Pétursson, „Þjóðkirkja, frelsi og fjölbreytni“, 226-232.
25 Pétur Pétursson, „Trúarhreyfmgar í Reykjavík tvo fyrstu áratugi 20. aldar - Seinni hluti“,
234-235, 248-249.
26 Friðrik J. Bergmann, Trú ogþekking, 110-132.
27 Valdimar J. Eylands, íslenzk kristni í Vesturheimi, 132-148.
28 Málatilbúnað og dóminn er að finna í Friðrik J. Bergmann, Trú ogþekking, 271-355.
29 „Vini mínum séra Friðriki J. Bergmann er þessi bók helguð." Sjá: Jón Helgason, Grundvöllurinn
er Kristur, 3.
30 „Séra Jón Helgason hefur sýnt mér þá velvild að sjá um prófarkarlestur.“ Sjá: Friðrik J. Bergmann,
Trú ogþekking, formáli [án blaðsíðutals].
82