Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2011, Page 107
þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?" (v.2)
Jesús gefur hins vegar enga „góða ástæðu“ fyrir blindu mannsins, segir
Fortune. Fremur bendi hann á hvar Guð sé í þjáningu mannsins og hvað
hann geti gert í aðstæðum hans.23
Fortune er ekki fylgjandi guðfræði sem lítur á krossfestingu Jesú sem
líkan fyrir nauðsynlega þjáningu manna, né heldur að þjáning kristins
fólks sé nauðsynleg og skiljanleg í ljósi krossfestingar Krists. Krossfestingin
er í hennar augum fremur líkan fyrir hrylling þjáningarinnar sem og fyrir
þann vilja Guðs að enginn eigi að þurfa að þjást vegna ofbeldis framar.
Hún heldur ekki upp á hina klassíska friðþægingarkenningu kristninnar
sem heldur því fram að Guð hafi fórnað syni sínum á krossi til að sætta
syndugan heim við sig. Guð drap ekki son sinn, segir Fortune og krossdauði
hans er ekki friðþægingarverk Guðs og heims. Krossfestingin er harmleikur
sem ekkert fær réttlætt, segir hún. Synd manna birtist í skaðlegum verkum
þeirra gagnvart hver öðrum og þar með kærleika Guðs. Þessi staðreynd
birtist skýrt í krossfestingu Jesú, að mati Fortune. 24
Odæðisverkin sem þolendur kynferðisofbeldis segja frá þegar þeir koma
til meðferðar hjá stofnun Marie Fortune, Faith Trust Institute, svipar að
mörgu leyti til þeirra ódæðisverka sem lesa má um á síðum Biblíunnar25.
Kirkjan má ekki upphefja slíkt ofbeldi og þar með þjáningu þeirra sem fyrir
slíku hafa orðið og gefa henni einhvern æðri tilgang, ítrekar Fortune. Guð
hefur sannarlega ekki sent viðkomandi þessa reynslu til að styrkja hana eða
hann. Guðsmynd sem styðji slíka túlkun segir hún ekki vera til staðar í
Nýja testamentinu. Hins vegar sé það staðreynd að fólk þjáist. Spurningin
sé þó ekki endilega hvers vegna viðkomandi þjáist, heldur fremur hvað
maður eigi að gera við þjáninguna. Með því að umorða spurninguna um
merkingu á þennan hátt, áréttar Fortune, breytir maður samtímis eigin
stöðu, úr óvirkum einstaklingi sem horfir til æðri máttarvalda og spyr hvers
vegna þetta hafi komið fyrir sig - í þroskaðri einstakling sem tekur ábyrgð
á sjálfum sér, í aðstæðum sem þessum, með hjálp Guðs og góðra manna.26
23 Fortune, Marie M. 2005. Sexual Violence, bls.138-139.
24 Fortune, Marie M. 2005. Sama rit, bls.140-142.
25 Það eru ófáar frásögur í Gamla testamentinu af kynferðislegu ofbeldi og nauðgunum á konum.
Þekktustu dæmin eru trúlega í Mósebókunum, Síðari Samúelsbók og í Dómarabókinni. Phyllis
Trible hefur skrifað um hryllingstexta Biblíunnar og kynferðislegt ofbeldi í bókinni Texts ofTerror.
Literary-Feminist Readings of Biblical Narratives (1984, Philadelphia, Fortess Press).
26 Fortune, Marie M. 2005. Sexual Violence, bls. 143-144.
105