Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2011, Page 133
Sigurður hefur valið þá leið að gera grein fyrir sjálfum sér í Eftirmála.
Þar fjallar hann bæði um þann hlutleysisvanda sem hann stóð alltaf frammi
fyrir, sem er að flestu leyti sami hlutleysisvandi og aðrir höfundar gætu
staðið frammi fyrir, þ.e. að Sigurður sem kristinn maður hefur auðvitað
skoðanir og tilfinningar til kristindómsfræðslunnar. En Sigurður er líka
fagmaður bæði á vettvangi skóla og kirkju. Hann fjallar hér líka um þá
aðferðalegu ögrun sem það felur í sér að segja sögu þar sem hann er einn
aðalþátttakandinn í að skapa á síðasta hluta umfjöllunartímans.
Ályktun Sigurðar um að hann hafi vammlaust sagt söguna á agaðan
og hlutlægan hátt er rétt. Onnur leið hefði þó verið sú að láta sjálfan sig
koma miklu rækilegar fram í sögunni, segja síðasta hluta sögunnar af eigin
sjónarhóli sem sögupersónu og manneskju með mótaðar faglegar og trúar-
legar skoðanir. Sú ákvörðun að láta eigin persónu koma sem minnst fram
í sögulegu atburðarásinni en gera Eftirmála um höfundinn er tiltölulega
örugg. En þessi aðferð getur líka orkað tvímælis, t.d. þegar atburðarásin
er látin vera svo ópersónuleg að tvívegis á sömu opnu (bls. 224 og 225) er
útskýrt nákvæmlega að Sigurður Pálsson sem tók að sér tiltekin hlutverk
í námskrárgerð og námsstjórn hafi verið kennari og skrifstofustjóri hjá
Ríkisútgáfu námsbóka.
Sigurður er lengst af fremur varfærinn í ályktunum sínum. Það getur
verið bæði kostur og galli að vera svo varfærinn. Mér hefði fundist óhætt að
láta í ljós skýrari og áleitnari ályktanir eða svara áðurnefndum rannsóknar-
spurningum á bls. 16-17 með beinum hætti.
Sigurður tekur oftar afstöðu í Eftirmálanum og í síðari hluta hans setur
hann fram framtíðarsýn við aldarskil. Hann krefst betri kennaramenntunar
og meiri áherslu á trúarbragðafræði í framhaldsskólum - „krefst“ er reyndar
ekki orðfæri Sigurðar hér, en nefnir „gloppu“. Hann telur líka að það sé
krafa tímans við upphaf 21. aldar að vönduð, upplýst umræða fari fram um
stöðu trúarbragðafræðslu í skólakerfinu - og telur að stefna eigi til framtíðar
á menningarmiðaða trúarbragðafræðslu.
Ögun Sigurðar sem fræðimanns er alls ekkert minni í Eftirmálanum
en annars staðar í ritgerðinni - en vitaskuld má gera öðruvísi kröfur til
Eftirmála en til annarra hluta ritgerðar um túlkun sjónarmiða sem þar eru
sett fram. Mér finnst reyndar ögun hans jafnvel vera mest þegar hann leggur
línur til framtíðar, segir okkur hverjar eru ályktanir hans af fortíð fyrir nútíð
og framtíð. Því spyrja má til hvers er kafað í viðfangsefnið ef við hefðum
ekki fengið að vita hvað fræðimanninum finnst um nútíðina.
131