Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2011, Page 28
skert umfram það sem þörf krefur.25 Fyrsta skrefið í löngum ferli aðskilnaðar
frá ríkinu var að mati Þórhalls að prestastéttin væri unnin til fylgis við
hugmyndina. Taldi hann mikið vanta á að forystumenn kirkjunnar, prestar
og sóknarnefndarmenn, væru almennt fylgjandi aðskilnaði.26 Þórhallur vildi
þó að hægt væri farið í aðskilnað enda fylgdu honum ýmis álitamál.27 A
þessu skeiði má því telja Þórhall varfærinn fríkirkjumann.
Afstaða Þórhalls Bjarnarsonar til kirkjuþings
Viðbrögð Þórhalls Bjarnarsonar við því að landsstjórnin skyldi sniðganga
frumvarp meirihluta Kirkjumálanefndarinnar 1904-1906 um kirkjuþing
voru snörp.28 Taldi hann í grein frá 1907 skaðann af því hafa orðið meiri
en ef hún hefði hafnað öllum öðrum frumvörpum sem frá nefndinni komu
en látið þetta eina ná fram að ganga „þar sem hér er um að ræða eitt af
frumskilyrðunum fyrir því, að þjóðkirkjan geti náð ákvörðun sinni sem
þjóðkirkja“.29 Um málið sagði hann meðal annars:
Á hinu öllu er þörf, en á þessu er nauðsyn. Þjóðkirkjan getur aldrei náð
ákvörðun sinni sem kirkja þjóðarinnar nema viðjum ósjálfstæðisins verði af
henni létt og hún fái meira vald, en nú hefir hún, til þess að ráða sérmálum
sínum til lykta.30
Þórhallur gekk því út frá sama þjóðkirkjuskilningi og ráðið hafði ferðinni
í biskupstíð Hallgríms Sveinssonar og leit svo á að þjóðkirkjan þarfnaðist
og að henni bæri sjálfstæði í innri málum sínum.31 I samræmi við þessa
þungu áherslu á sjálfstæði sem óhjákvæmilegan eðlisþátt þjóðkirkju notaði
Þórhallur gjarna hugtakið ríkiskirkja yfir kirkjuskipan landsins um sína
daga og virðist hafa talið það gefa réttari mynd af sambandi ríkis og kirkju
en þjóðkirkjuheitið sem innleitt var með stjórnarskránni 1874. Sýnist hann
25 Sjá Ellingsen 1973: 31. Smith 2006: 43, 51, 56, 59-60. Plesner 2006: 67, 69, 70-72, 80 .
Hnstmælingen 2006: 93-95.
26 Kirkjublaðið. IV. 1893: 210-211.
27 Undirtektirnar 1894: 100.
28 Um afdrif frumvarpsins sjá Hjalti Hugason 2010: 84-85, 98-100.
29 Hin kirkjulegu stjórnarfrumvörp 1907: 107. Ekki ber að efa að Þórhallur hafi hér mælt af heilum
huga. 1895 hafði hann þó gagnrýnt hugmyndir Þórarins Böðvarssonar um kirkjuþing fyrir að í
þeim fælust margítrekaðar tilraunir „kirkjuhöfðingja" til að tryggja kirkjunni í senn fullt sjálfstæði
og áhyggjulaust uppeldi af hálfu ríkisvaldsins, þ.e. sjálfræði og ábyrgðarleysi. + Þórarinn prófastur
Böðvarsson 1895: 106.
30 Hin kirkjulegu stjórnarfrumvörp 1907: 107.
31 Hjalti Hugason 2005. Hjalti Hugason 2010: 87-93.
26