Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 86
veraldlega (e. transcendent / þ. transzendent), en meginþunga á þó að
leggja á „íbúð“37 eða íveru Guðs í heiminum (e. immanence). Trúin er þar
vettvangur samfélags manns og Guðs að mati Friðriks J. Bergmanns. Hún
er andleg reynsla í hjarta mannsins og samvisku. Hér verður trúarvitund
einstaklingsins að vera frjáls, fá að njóta fullkomins frjálsræðis.38 Trúin
er hluti af mannlegu eðli og trúarbrögðin eru kerfi sem vafið er utan um
kjarna hennar. Trúin „er lífsneistinn, sannleiksatriðið, sem þau geyma, -
það sem styrkir manninn í baráttunni fyrir tilverunni, það sem gefur þeim
[mönnunum] gildi í lífinu“. Trúin felst í því að „ganga hinu sannasta og
réttasta, sem vér þekkjum á vald, og laga líf vort eftir því.“39 í kristinni trú
er þessi kjarni Kristur, sem einstaklingurinn kynnist í þeim vitnisburði sem
ritningin geymir. „Vér trúum á þann guð, sem komið hefir til móts við
mennina í Kristi. En vér trúum hvorki á bókina né bókstafinn.“40
Kjarni trúarinnar er það sem mestu máli skiptir, ekki umbúðir og leifar
eldri þroskastiga. Friðrik J. Bergmann byggir framsetningu sína á þróunar-
hugmynd þar sem veruleika mannsins má líkja við skólagöngu og/eða
þroskaferli í átt að æðri og dýpri andlegum þroska. Mikilvægi einstaklingsins
og samviskufrelsi er í fyrirrúmi. Maðurinn á því að stefna „öllu fyrir dóm
trúarvitundar sinnar, - sinnar eigin frjálsu hugsunar frammi fyrir augliti
föðurins [...]. Það er þetta, sem nefnt hefir verið samvizkufrelsi eða hugs-
unarfrelsi í andlegum efnum.“41 Af þessu leiðir að opinberun Guðs getur
ekki verið kyrrstæð, hún leitar sífellt fram á við.42 Kjarni trúarinnar er frelsi
samviskunnar, óendanlegt gildi mannssálarinnar og kærleikans.43
Hjá Friðriki liggur það í augum uppi að þessi vitnisburður ritningarinnar
verður ekki skilinn nema með aðferðum sögurýninnar. Nýguðfræðin nýtir
þær vísindalegu aðferðir sem þróast hafa í rannsóknum á ritningunni.
Fulltrúar hennar krefjast fullkomins frelsis í hugsun til að skýra eldri tíma
en rannsóknir þeirra eru þó með fullri vitund um takmarkanir mannsandans
37 FriðrikJ. Bergmann, Trú ogþekking, 19.
38 Sama rit, 21. Það er allrar athygli vert hversu greining Friðriks J. Bergmanns kallast á við
skilgreiningar Gunnars Kristjánssonar á muninum á frjálslyndri guðfræði (þ. Lieberalismus) og
íhaldssamri guðfræði (þ. Konservativismus) tæpum 100 árum síðar. Sjá: Gunnar Kristjánsson,
„Frjálslynd guðfræði í nýju ljósi“, í: Frjálslynd guðfraði í nýju Ijósi, ritstj. Gunnar Kristjánsson,
Glíman, sérrit 2, Reykjavík 2010, 17-18, [13-27].
39 Sama rit, 199.
40 Sama rit, 151.
41 Sama rit, 201.
42 Sama rit, 204.
43 Sama rit, 218-219, 221.
84