Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 35
34
í upphafi verksins og með því greindi hann sig skýrt frá fyrri frásögnum
af fortíð manna sem byggðu á guðdómlegri innlifun.26 Í verkinu sjálfu
notar hann sagnorðið historeō (ἱστορέω) nokkrum sinnum27 og það er
hluti af þrefaldri aðferðafræði hans: Sú þekking sem er tryggust kemur
frá því sem hann sjálfur hefur séð, autopsía (αὐτοψία). Ef hennar nýtur
ekki við þá reynir hann að fá frásagnir annarra sem hafa þekkingu, hann
spyr einfaldlega fólk sem hann telur búa yfir þekkingu. Um þetta notar
hann sögnina historeō. Síðasta ráðið er síðan lærð ágiskun eða gnōmē
(γνῶμη). Historía vísar í þá þekkingu sem Heródótos fær við að spyrja og
líka almennt í þá þekkingu sem hann hefur aflað sér í verkinu – sbr. upp-
hafsorðin. Spurningar og svör eru alls ekki gagnrýnislaus aðgerð heldur
leitast Heródótos við að fá sem trúverðugasta sögu, hann talar jafnvel við
fleiri en einn, ferðast milli staða til að finna heimildafólk, ber frásagnir
saman við það sem hann sjálfur veit o.s.frv. Í 99. kafla bókar ii kemur
þetta skýrt fram. Fram að því hefur Heródótos sagt frá sögu, siðum og
náttúru Egyptalands en í kjölfarið segist hann ætla að endursegja það
sem hann heyrði hjá Egyptum (hann endursegir síðan elstu sögu Egypta).
Historía á einungis við um fyrri hlutann, ekki þann seinni, og er hluti af
þeim verkfærum sem hann beitir markvisst í leit að þekkingu og er ekki
gagnrýnislaus endursögn eftir öðrum.28
Samkvæmt heimspekingnum Herakleitosi, sem var uppi kringum alda-
mótin 500, var Heródótos þó alls ekki fyrstur til að leggja stund á histor-
ía, því Pýþagóras átti að hafa gert svo löngu fyrr. Herakleitos gagnrýnir
Pýþagóras með þessum orðum (DK22B129; G22[F13]):29
26 Sjá t.d. Guido Schepens, „History and Historia: inquiry in the Greek Historians“,
bls. 40.
27 Langflest tilvikin eru úr bók ii, rannsóknum hans á sögu, siðum og náttúru Eg-
yptalands. Sjá nánar bls. 70–89 í Eiríkur Smári Sigurðarson, Studies in Historia.
28 Sjá Egbert J. Bakker, „The Making of History. Herodotus’ Historie Apodexis“, Brill's
Companion to Herodotus, ritstj. Egbert J. Bakker, irene J. F. de Jong og Hans van
Wees, Leiden, Boston, Köln: Brill, 2002, bls. 3–32. Bakker kallar þetta „critical
listening“, bls. 15.
29 Við tilvísanir í brot „forveranna“ vísa ég bæði í klassíska útgáfu Diels og Kranz,
Die Fragmente der Vorsokratiker, ritstj. Hermann Diels og Walther Kranz, 6. útg.,
Zürich: Weidmann, 1951, og í nýja útgáfu Grahams, The Texts of Early Greek
Philosophy. The Complete Fragments and Selected Testimonies of the Major Presocratics,
ritstj. Daniel W. Graham, 2 bindi, Cambridge: Cambridge University Press, 2010.
Þá fyrri merki ég sem DK og þá seinni sem G.
eiRíkuR smáRi siguRðaRson