Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 134
133
hermenn og lýsir umsátri þeirra og illvirkjum; bakteríurnar og Málfríður
minna á andstæðinga í stríði sem berjast um yfirráð yfir líkama hennar.
Hvert líffæri samsvarar landsvæði sem bakteríurnar og Málfríður skiptast á
um að leggja undir sig. Bakteríunum tekst þó aðeins að veikja Málfríði en
ekki að vinna fullnaðarsigur. Hún telur líkamlegu verkina reyndar smáræði
samanborið við hugarvílið sem hún má þola, bæði samhliða þeim og í
kjölfar þeirra.38 Stríðslíkingarnar verða því jafnvel enn algengari og magn-
aðri í lýsingum hennar á Svörtupísl, eins og sést í dæmum sem hér koma
á eftir. Andspænis lýsingum Málfríðar á bakteríunum má ekki gleyma að
á þessum tíma er pensillín ekki komið til sögunnar39 og því er hver atlaga
þeirra að henni bardagi upp á líf og dauða.
Málfríður gerir greinarmun á þeim þjáningum sem hún hefur mátt
þola vegna slysa og ills aðbúnaðar annars vegar og erfða hins vegar, en við
hvorugu gat hún spornað:
Fyrir utan Svörtupíslir og máttleysin, eru ýmsar píslir líkamlegs eðlis
sem ég hef orðið að þola: Ónotin í höfðinu eftir þungt fall af hestbaki
níu ára sem skemmdi mig svo að síðan hefur hausinn aldrei orðið
góður. Við þann haus hef ég samt orðið að búa alla tíð síðan, ekki átt
kost á öðrum haus. Tærnar tvær sem einn bartskerari krukkaði í án
þess að kunna það. Svo kom annar helmingi verri og krukkaði enn
ver, og alltaf komu vondir skór og meiddu mig, og vondir tanngarðar
og meiddu mig til óbóta, og vont ætterni og skemmdi í mér augun,
og annað vont ætterni og lét hárið þynnast sem svo þykkt var í fyrstu
og eftir því sítt.40
Hér tekur Málfríður af allan vafa um að „máttleysin“ eins og „hnés-
bótamagnleysið“ eru fylgifiskar Svörtupíslar en ekki af öðrum líkamlegum
toga. Þrátt fyrir að umfjöllunarefni skáldkonunnar sé dauðans alvara – í
bókstaflegri merkingu – þá tekst henni með húmornum að vinna gegn því
að frásögnin verði hversdagsleg sjúkdómslýsing, glettnin og írónían skína
af þessum texta.
Hugfræðingar hafa sett fram kenningar um hvað eigi sér stað í koll-
38 Sjá Málfríður Einarsdóttir, Úr sálarkirnunni, bls. 31.
39 Pensillín kom fyrst á almennan markað árið 1944 en ætla má að það hafi tekið
nokkurn tíma að berast til Íslands.
40 Málfríður Einarsdóttir, Úr sálarkirnunni, bls. 30–31.
AF ALLRi PÍSL OG KVALRæði . . .